Körfubolti

Guðjón Skúlason: Við vorum okkur bara til skammar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Daníel
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, var mjög ósáttur með leik sinna manna eftir 36 stiga tap á heimavelli á móti Snæfelli í hreinum úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við vorum okkur bara til skammar. Þetta var lélegasta vörn sem ég hef liðið mitt spila í allan vetur. Við leyfðum þeim að gera allt. Þeir fengu að keyra upp að körfu, skjóta og frákasta. Þegar svoleiðis er þá bara töpum við. Við verðum bara að biðjast afsökunar á okkar frammistöðu hér í dag," sagði Guðjón.

Keflavík byrjaði leikinn skelfilega og var komið 20 stigum undir eftir aðeins fimm mínútna leik.

„Ég veit ekki hvað var að hjá okkur og hvort við værum yfir spenntir eða ekki nógu spenntir. Við náðum aldrei neinum tengslum við þennan leik. Við vorum hræðilega lélegir í öllu. Við gerðum allt illa sem kemur að því að spila körfubolta," sagði GUðjón.

„Það agalegt að spila svona illa á heimavelli fyrir framan fullt af fólki sem styður okkur og var komið til að sjá okkur gera betur. Þetta var hræðilega lélegt og við áttum ekki skilið að vinna," sagði Guðjón.

„Maður er svekktur núna en auðvitað er gott að komast svona langt. Maður vildi að sjálfsögðu vinna þegar maður var kominn í tækifæri til þess. Við áttum alla möguleika á því að vinna þetta en við klúðruðum því sjálfir.Við vorum ekki að láta þá hafa neitt fyrir þessu. Við leyfðum þeim að komast 20 og eitthvað stigum yfir fyrir hálfleik og það er bara hræðilegt," sagði GUðjón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×