Körfubolti

Íslandsmeistarabikarinn hefur aldrei farið norður fyrir Esju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfellingar fagna sigri í DHL-höllinni á dögunum.
Snæfellingar fagna sigri í DHL-höllinni á dögunum. Mynd/Arnþór
Snæfell getur í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagins þegar Keflavík og Snæfell spila hreinan úrslitaleik um titilinn í Toyota-höllinni í Keflavík. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Lið frá höfuðborgarsvæðinu eða suðurnesjum hafa unnið alla 58 Íslandsmeistaratitlana til þessa þar af hafa Reykjavíkurlið orðið 30 sinnum meistari og 27 sinnum hefur Íslandsbikarinn farið á Suðurnesin.

Haukar frá Hafnarfirði eru síðan eina félagið sem hefur unnið Íslandsbikarinn sem er ekki úr Reykjavík eða frá Suðurnesjum. Haukarnir unnu oddaleik í Njarðvík fyrir 22 árum síðan.

Snæfell getur því orðið fyrsta landsbyggðarfélagið til þess að verða Íslandsmeistari í körfubolta karla og Íslandsbikarinn myndi þá fara í fyrsta sinn norður fyrir Esju.

Íslandsmeistarar í körfubolta karla frá upphafi

ÍR 15 sinnum (síðast 1977)

Njarðvík 13 sinnum (2006)

KR 11 sinnum (2009)

Keflavík 9 sinnum (2008)

ÍKF 4 sinnum (1958)

Valur 2 sinnum (1983)

ÍS 1 sinni (1959)

Ármann 1 sinni (1976)

Haukar 1 sinni (1988)

Grindavík 1 sinni (1996)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×