Lífið

Fyrirsæta hannar gjafapappír

Hæfileikarík Elísabet Davíðsdóttir, fyrirsæta og ljósmyndari, hefur hannað stórskemmtilegan og sérstakan gjafapappír.
fréttablaðið/vilhelm
Hæfileikarík Elísabet Davíðsdóttir, fyrirsæta og ljósmyndari, hefur hannað stórskemmtilegan og sérstakan gjafapappír. fréttablaðið/vilhelm
Elísabet Davíðsdóttir fyrirsæta og móðir hennar hafa hannað gjafapappír með munstri úr náttúrunni.

Elísabet Davíðsdóttir, fyrirsæta og ljósmyndari, hefur hannað stórskemmtilegan gjafapappír í samstarfi við móður sína, Emmu Axelsdóttur innanhúsarkitekt. Hugmyndina að pappírnum sóttu mæðgurnar beint til náttúrunnar og getur fólk meðal annars valið á milli klakabreiðumynsturs, hellubergs, mosa og holtagrjóts.

„Mér og mömmu hefur alltaf þótt mjög gaman að pakka inn gjöfum. Einu sinni eftir að það hafði snjóað töluðum við um hvað það væri gaman ef maður gæti pakkað inn gjöf í svona fallegan snjó og það var eiginlega út frá því sem hugmyndin varð til," útskýrir Elísabet. Pappírinn er fáanlegur í sex útgáfum og eru mynstrin gerð með innihald pakkans í huga. „Við erum með snjó og mosamynstur fyrir mjúku pakkana, klakabreiðu og helluberg fyrir þá hörðu og tvær útgáfur af holtagrjóti fyrir óreglulegu pakkana. Holtagrjótið er skemmtilegt vegna þess að það getur stundum verið erfitt að greina hvort um pakka eða raunverulegan grjóthnullung er að ræða."

Elísabet segir viðtökurnar hafa verið góðar og útilokar ekki að þær mæðgur muni bæta við línuna í nánustu framtíð. „Það er auðvitað mjög gaman að fólk skuli hafa tekið svona vel í þetta og þetta virkar mjög hvetjandi á okkur mæðgurnar."

Innt eftir því hvort jólagjöfunum frá henni sjálfri verði pakkað inn í pappírinn góða svarar Elísabet því játandi. „Já, ég á auðvitað eftir að pakka öllum mínum gjöfum inn í svona pappír," segir hún að lokum og hlær.

Gjafapappírinn fæst í verslunum Epal, Iðu, Kraumi og Máli og menningu. Einnig verður fatahönnuðurinn Steinunn með pappírinn í boði fyrir sína viðskiptavini.sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.