Lífið

Furðu lostinn yfir ritskoðun á Myspace

Hjörtur er að eigin sögn undir stífu eftirliti hjá stjórnendum Myspace-síðunnar.
fréttablaðið/gva
Hjörtur er að eigin sögn undir stífu eftirliti hjá stjórnendum Myspace-síðunnar. fréttablaðið/gva
„Ég er furðu lostinn og skil ekki hvað er í gangi,“ segir tónlistarmaðurinn Hjörtur Geirsson, sem er að eigin sögn undir stífu eftirliti hjá stjórnendum Myspace-tónlistarsíðunnar.

„Það er ekki heimilt að segja hvað sem er á Myspace. Ég er búinn að reka mig á ótrúlega hluti í sambandi við það,“ segir Hjörtur. Hann fékk á sínum tíma verðlaun fyrir þrjú lög sem hann sendi í lagasmíðakeppni hjá Paramount í Bandaríkjunum og þau voru í framhaldinu gefin út á safnplötu. Hann hefur gefið út tvær sólóplötur og kom sú síðari, The Flow, út árið 2007.

Hjörtur hefur átt í erfiðleikum með að birta myndbönd á síðunni sinni, sem hefur ekki gerst á Facebook og Youtube. „Ég fékk það á tilfinninguna að það væri verið að ritskoða mig,“ segir hann og telur að ekki megi rita orðið „censor“ (ritskoðun) á síðunni. Ekki megi heldur tala þar illa um kennara. „Þetta er alveg með ólíkindum. Það er eins og þeir séu að fylgjast með hverju orði sem ég skrifa.“

Hjörtur segir þetta bagalegt enda notar hann Myspace til að koma tónlist sinni á framfæri úti í hinum stóra heimi. Hann hefur íhugað að hætta með síðuna en vill ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. „Ég sendi þeim skilaboð og var mjög reiður. Þeir hafa ekki svarað mér en ég hef alveg eins búist við því að þeir sendi mér skilaboð um að þeir ætli að loka þessu.“

Þrátt fyrir vandræðin er Hjörtur enn á fullu í tónlistinni því nýlega var hann beðin um að semja fjögur lög fyrir jafnmarga kántrítónlistarmenn í Nashville, eða þau Blake Shelton, Adrianna Freeman, Lucas Hoge og Wynona. - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.