Lífið

Ástin er bara í myndböndunum

Sara McMahon skrifar
Anna Þóra Alfreðsdóttir, fyrirsæta hjá Eskimo, lék nýverið í tónlistarmyndbandi við nýtt jólalag hinnar vinsælu hljómsveitar Hurts. Þetta er í annað sinn sem Anna Þóra leikur í myndbandi með hljómsveitinni en í bæði skiptin leikur hún stúlkuna sem söngvari hljómsveitarinnar, Theo Hutchcraft, er hugfanginn af.

Myndbandið var tekið upp í gömlum kirkjugarði í norðurhluta London og fóru tökur allar fram á einum degi. „Við byrjuðum eldsnemma um morguninn og unnum langt fram á kvöld. Það var mikil pressa á að ná öllum skotunum áður en það fór að dimma. Það var samt mikil stemning og ég held að allir hafi komist í jólaskap," segir Anna Þóra.

Þetta er í annað sinn sem Anna Þóra leikur stúlkuna sem söngvarinn er ástfanginn af en hún segir svo ekki vera í raunveruleikanum. „Ég hef heyrt einhverjar sögusagnir um það að við séum par, en nei, við erum ekki saman. Það er samt svolítið fyndið að heyra svoleiðis sögur úti í bæ," segir hún.

Innt eftir því hvort hún muni leika í fleiri myndböndum hljómsveitarinnar segir hún ekkert ákveðið um það að svo stöddu. „Það var mjög kalt þegar við tókum upp bæði þetta og fyrra myndbandið og strákarnir voru eitthvað að grínast með að næst myndu þeir passa upp á að tökur færu fram á hlýjum stað þannig það er aldrei að vita. Ég myndi í það minnsta taka því fagnandi," segir hún hlæjandi.

Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.