Handbolti

Anna Úrsúla: Finnst aldrei leiðinlegt þegar að maður nær að berja einhvern

Rafnar Orri Gunnarsson skrifar
Anna Úrsúla, lengst til vinstri, fagnar eftir leikinn í dag.
Anna Úrsúla, lengst til vinstri, fagnar eftir leikinn í dag. Mynd/Stefán

„Þetta var hrikalega gott. Það er búið að bíða eftir þessu lengi og ekki slæmt að klára þetta á heimavelli hins liðsins. Þetta er búið að vera frábær vetur og í raun mjög gott hjá okkur að tapa bara einum leik í deldinni. En þessi íslandsmeistaratitill er hrikalega sætur," sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, yfirsig ánægð með verðlaunapening um hálsinn. En Valsstúlkur tryggðu sér íslandsmeistaratitilinn í dag eftir sigur gegn Fram 26-23. Framlengja þurfti leikinn til að útkljá um þennan slag.

 

„Vörnin hjá okkur var hrikalega góð í byrjun en við slökuðum aðeins á í seinni hálfleik. Ég held að skapið í okkur hafi hjálpað okkur að klára þetta í dag þar sem að þær voru búnar að reita okkur til reiði með ummælum sínum hér og þar," bætti Anna við.

 

Leikurinn í dag einkenndist af mikillu hörku og Anna Úrsúla viðurkenndi að henni leiðist ekki að kljást og berjast í vörninni.

 

„Þetta var svolítill strákabolti, mér finnst aldrei leiðinlegt þegar að maður nær að berja einhvern. Ef að maður gerir það löglega þá er það í lagi. Mér finnst skemmtilegast að taka vörnina á fullu og að vera í vörn heil lengi og berjast, ég fýla það," sagði Anna en hún hælir Berglindi Írisi Hansdóttir liðsfélaga sínum og segir hana besta leikmann á landinu

 

„Liðsheildin er búin að vera mjög góð hjá okkur og í dag stóð Berglind upp úr og hún er bara besti leikmaður á landinu og á það orðspor fullkomlega skilið. Ég gæti ekki verið sáttari við lífið í dag," sagði Anna Úrsúla að lokum fagnandi með liðsfélögum sínum í Safamýrinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×