Bíó og sjónvarp

Öflugustu tvíeykin í Hollywood

John Wayne og John Ford.
John Wayne og John Ford.

Margir af fremstu leikstjórum heims hafa bundist miklum tryggðarböndum við einn ákveðinn leikara. Þekktasta parið er eflaust Robert De Niro og Martin Scorsese en slík sambönd eru alls ekki óalgeng.

Kvikmyndatímaritið Empire tók nýverið saman fjörutíu helstu sambönd leikara og leikstjóra. Af nægu er að taka í þeirri upptalningu og þótt heimsbyggðin þekki kannski einna helst til amerískrar og breskrar samvinnu má ekki gleyma hinu gjöfula samstarfi japanska meistarans Akira Kurosawa og stórstjörnunnar Toshiro Mifune en saman gerðu þeir sextán kvikmyndir, í þeim hópi er auðvitað Sjö samúræjar.

Þá væri það hálfgerð sögufölsun ef dálæti Federico Fellini á ítalska eðaltöffaranum Marcello Mastroianni væri ekki talið með, þeir gerðu sex myndir saman, sú frægasta er án nokkurs vafa 8 1/2 vika.

Til Hollywood
Alfred Hitchcock og James Stewart.

Martin Scorsese er þekktur fyrir að taka ástfóstri við einn ákveðinn leikara. Fyrstur var Harvey Keitel, svo kom De Niro og nú er það Leonardo DiCaprio sem Scorsese hringir fyrst í þegar hann langar að gera bíómynd. Scors­ese hefur sagt að leikarar veiti sér við kvikmyndagerð og það er fullsannað að fáum tekst jafn vel að ná fram því besta úr leikhópnum og Martin Scorsese.

Annar slíkur leikstjóri væri til að mynda Alfred Hitchcock. Spennusagnameistarinn gerði fjórar myndir með Cary Grant, þeirra þekktust er án nokkurs vafa njósnamyndin North By Northwest. Hitchcock hafði einnig mikið dálæti á Jimmy Stewart og gerði einnig fjórar myndir með honum, þar á meðal meistarastykkið The Rear Window.

David Lean, sem er þekktur fyrir „stórmyndir" sínar, hallaði sér yfirleitt upp að Alec Guinness. Og kannski ekkert skrýtið. Guinness er einn besti leikari hvíta tjaldsins, fyrr og síðar. Kvikmyndir á borð við Brúin yfir Kwai-fljótið, Arabíu-Lárens og Oliver Twist eru fyrir löngu skráðar á spjöld kvikmyndasögunnar og samstarf Guinness og Leans var með því blómlegra sem þekkist.

Kúrekar og furðufulgar
David Lean fylgist með því þegar Alec Guinness er breytt í Fagin fyrir Oliver!

Tim Burton hefur ekki mátt hugsa um kvikmyndagerð án þess að nafn Johnny Depp komi þar við sögu. Sjö myndir hafa þeir gert saman, sú síðasta var Lísa í Undralandi. Burton og Depp svipar mjög saman, eru hæfilega skrýtnir og virðast deila sömu viðhorfum til lífsins.

Hið sama verður ekki sagt um frumkvöðulinn John Ford og kúrekahetjuna John Wayne. Ford var harður demókrati en Wayne studdi Repúblikanaflokkinn af miklum móð. Ford var síður en svo mannvinur, hann nánast lamdi Wayne áfram og píndi út úr honum frammistöðu á hestbaki sem aðdáendur kúrekamynda gleyma seint. Þessir ólíku menn - Wayne hafði orð á sér fyrir að vera öðlingur en Ford var lýst sem drykkjusjúku írsku fífli - gerðu þó saman 21 mynd á 24 árum, sú frægasta er The Searchers.

Langur listi
Fellini og Mastroianni á tökustað.

Eins og áður segir er listi Empire yfir farsæl sambönd leikara og leikstjóra ansi langur. Á honum er að finna tvíeyki líkt og Spike Lee og Denzel Washington, Tom Hanks og Steven Spielberg og Tarantino og Umu Thurman. Steven Soderbergh og George Clooney hafa gert saman sex myndir og ríkisstjórinn í Kaliforníu, Arnold Schwarzengger, var alltaf upp á sitt besta þegar James Cameron var við stjórnvölinn.

Ekki má heldur gleyma David Fincher og Brad Pitt, einu flottasta tvíeyki seinni tíma. Pitt er aldrei betri en þegar hann vinnur með Fincher og það verður því að teljast gott slúður sem gengur nú ljósum logum um kvikmyndaborgina að Brad Pitt ætli að leika Mikael Blomkvist í amerísku útgáfunni af Millenium-þríleik Stieg Larsson.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.