Innlent

Vilja að bæjarbúar borgi reikninginn

Sigríður Mogensen skrifar
Meirihluti bæjarráðs í Kópavogi vill að bæjarsjóður greiði sex hundruð þúsund króna lögfræðikostnað þriggja bæjarfulltrúa vegna meiðyrðamáls sem Frjáls miðlun höfðaði gegn þeim. Einn bæjarfulltrúanna segir eðlilegt að bærinn greiði kostnaðinn, því hann komi til vegna starfa þeirra fyrir Kópavog.

Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson bæjarfulltrúar í Kópavogi voru sýknuð í meiðyrðamáli sem fyrirtækið Frjáls miðlun höfðaði vegna ummæla þeirra í blaðagrein um spillingu í viðskiptum bæjarins við fyrirtækið. Annar eigenda Frjálsrar miðlunar er dóttir Gunnars Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra.

Á þorláksmessu lagði meirihluti Kópavogsbæjar fram þá tillögu í bæjarráði að bæjarsjóður greiði lögfræðikostnað fyrir bæjarfulltrúanna þrjá. Málsbæturnar sem þeim voru dæmdar duga ekki fyrir málskostnaði og munar þar um 6 til 800 hundruð þúsund krónur.

Hafsteinn Karlsson segir eðlilegt að bærinn greiði kostnaðinn því bæjarfulltrúarnir hafi með afskiptum af málinu verið að verja hagsmuni bæjarins.

„Við vorum búin að leita til tryggingafélags, ég var með málskostnaðartryggingu þar, en það nær ekki yfir ef ég er að sinna mínum störfum og ég skaut þeim úrskurði til úrskurðanefndar Tryggingafélaga sem tók í sama streng og taldi að ég væri að sinna mínum störfum fyrir sveitarfélagið. Svo kemur það líka fram í dómnum að við værum að sinna okkar skyldum sem bæjarfulltrúar."

En hvers vegna ættu bæjarbúar að greiða kostnað bæjarfulltrúa vegna einkamáls?

„Ef bæjarfulltrúar eru í þannig stöðu að þeir geti átt það á hættu að vera sóttir til saka eða kærðir og þurfa að leita til lögfræðinga með tilheyrandi kostnaði er verið að skerða lýðræðislegan möguleika þeirra."

Býstu við að þetta nái í gegn?

„Ég ætla rétt að vona það, því þetta snýst um lýðræðislega möguleika til að tjá sig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×