Körfubolti

Páll: Þetta var aumingjaskapur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Daníel
Mynd/Daníel

Páll Kolbeinsson, þjálfari KR, var afar svekktur eftir að hans menn höfðu tapað fyrir Snæfelli annan leikinn í röð á heimavelli. Snæfell getur því komist í úrslitarimmu Íslandsmótsins með sigri í Hólminum á mánudag.

„Ég er alveg svakalega svekktur. Við virtumst vera með leikinn í okkar höndum en svo hittum við ekkert síðustu mínúturnar. Við gerðum okkur erfitt fyrir. Það skipti ekki máli þó svo við fengjum galopin skot, við bara hittum ekki," sagði Páll en fóru hans menn á taugum?

„Það getur vel verið að menn hafi ekki höndlað pressuna undir lokin. Við eigum samt að vinna þessa leiki og við hleyptum þeim inn og leyfðum þeim að vinna. Þeir voru ekki að gera neitt sérstaka hluti. Fyrir utan þristana hans Berkins voru flest þeirra stig bara af vítalínunni," sagði Páll sem hefði gjarnan viljað fá villu á lokasekúndunni er Morgan Lewis reyndi að jafna leikinn.

„Við risum upp síðast en það verður erfitt að rísa upp á ný því við erum búnir að koma okkur í ansi djúpa gröf. Þetta er aumingjaskapur hjá okkur. Við áttum að klára þetta í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×