Körfubolti

Hlynur: Treystum okkur í hvaða lið sem er

Henry Birgir Gunnarsson í Fjárhúsinu skrifar

„Þetta var fáranlega gott hjá okkur. Hvernig við náðum að sprengja þetta upp og skora 110 stig. Það er mjög þægilegt þegar maður þarf að vinna leik að hitta úr svona sex þriggja stiga skotum í röð eða hvað það var," sagði Snæfellingurinn Hlynur Bæringsson í handklæðinu einum fata eftir að lið hans sópaði Grindavík út úr Íslandsmótinu og komst um leið í undanúrslit.

„Það fór allt ofan í og mörg hver úr auðveldum færum að mér fannst. Svo erum við með byssu eins og Burton sem getur alltaf sprengt þetta upp. Við vorum mjög pirraðir og sárir að fá á okkur 57 stig í fyrri hálfleik og við vildum svara fyrir það í síðari hálfleik," sagði Hlynur. Snæfell gerði nákvæmlega það og vann þriðja leikhluta, 34-18.

„Það er mikið sjálfstraust í liðinu og það var enginn vafi í mönnum að við myndum vinna þetta. Þetta mikla sjálfstraust einkennir hópinn núna. Við erum svona næstum þvi lið sem hefur unnið bikarinn en ekki farið alla leið í Íslandsmótinu.

Kjarninn er orðinn sjóaður og við treystum okkur í hvaða lið sem er. Sama hvað það heitir. Auðvitað er KR besta liðið en við treystum okkur í KR eins og hvaða annað lið," sagði Hlynur en er þetta árið sem Snæfell fer alla leið?

„Það er alltaf stefnan og maður rembist eins og rjúpan við staurinn þar til þetta tekst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×