Handbolti

Anna Úrsúla: Sýndum að við ætlum að klára þetta einvígi 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fer yfir málin með liðsfélaga í kvöld.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fer yfir málin með liðsfélaga í kvöld. Mynd/Vilhelm
Línumaðurinn Anna Úrsúla Guðmundsdóttir átti flottan leik með Val í kvöld þegar liðið vann 28-23 sigur á Haukum á heimavelli og komst 1-0 yfir í undanúrslitaeinvígi liðanna í N1 deild kvenna í handbolta.

„Þetta byrjaði ekki nógu vel hjá okkur en það small allt saman hjá okkur í seinni hálfleik og við sýndum þar og sönnuðum að við ætlum að klára þetta einvígi 2-0," sagði Anna Úrsúla sem gerðist vítaskytta Valsliðsins í leiknum og nýtti öll fjögur vítin sín.

„Ég er sátt við það að kerlingin sé komin á vítapunktinn og skoraði líka úr öllum vítunum," sagði Anna hlæjandi en bætti svo við: „Ef maður fær tækifærin þá verður maður að klára það," sagði Anna kát sem fiskaði þrjú af fjórum vítunum sjálf.

„Það er eins og það hafi loðað við okkur í allan vetur að byrja seint í leikjunum. Þegar vörnin hjá okkur smellur saman og við fáum þessum ódýru hraðaupphlaup þá er mjög erfitt að stoppa okkur. Það á reyndar líka við hjá þeim eins og sýndi sig í fyrri hálfleiknum," sagði Anna.

„Við áttum erfitt að finna svarið á vörninni hjá þeim í fyrri hálfleik og þær lentu í því sama á móti okkar vörn í seinni hálfleik. Við náðum að loka okkar vörn í lengri tíma og þess vegna unnum við þetta," sagði Anna en Valur tryggði sér sigur með því að vinna lokakafla leiksins 15-5.

„Það var karkaterinn í liðinu og liðsheildin sem skóp þennan sigur. Við þurfum að þjappa henni saman fyrr í næsta leik," sagði Anna að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×