Innlent

Dýpkunarskipinu seinkar til Landeyjahafnar

Herjólfur hefur átt óhægt um vik að leggja að landi við Landeyjahöfn
Herjólfur hefur átt óhægt um vik að leggja að landi við Landeyjahöfn Mynd: Vilhelm Gunnarsson
Til stóð að Scandia, dýpkunarskip Íslenska gámafélagsins, ætti að hefja vinnu við dýpkun í Landeyjahöfn í byrjun janúar 2011. Skipið átti að fara í skoðun hjá Siglingastofnun í Danmörku þann 15. desember en vegna tafa á viðgerð þurfti að seinka skoðun og fékk skipið ekki úthlutað nýrri skoðun fyrr en 10. janúar. Því er ljóst að skipið kemur ekki til vinnu fyrr en um miðjan janúar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenska gámafélaginu.

Scandia er 500 rúmmetrar dýpkunarskip sem hentar sérstaklega vel til vinnu við aðstæður svipaðar þeim sem er að finna í Landeyjahöfn auk þess sem unnið hefur verið að því síðastliðinn mánuð að auka afkastagetu þess enn frekar með ísetningu svokallaðs öldujafnara sem gerir skipið hæfara til að vinna við dýpkun í mikilli ölduhæð.

„Um leið og við hörmum þá seinkun sem verður á komu Scandia erum við einnig fullvissir að hingað sé að koma skip sem hentar einstaklega vel til að halda höfninni opinni á næstu árum," segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×