Óþol og áræði Sverrir Jakobsson skrifar 21. september 2010 06:00 Það er sérkennileg tilfinning að keyra á leyfðum hámarkshraða eftir hraðbraut í Reykjavík og horfa á hvern bílinn á fætur öðrum æða fram úr. Ekki er það gert til þess að komast hraðar á áfangastað því að undantekningarlaust rekst maður á alla þessa bíla aftur á næstu umferðarljósum. Nei, framúraksturinn er eingöngu framúrakstursins vegna og hefur enga praktíska þýðingu. Svona einkennileg hegðun kallar vissulega á skýringu en hún er ekki auðfundin. Þetta nær því varla að teljast hraðafíkn; henni er ekki svalað við það að keyra á 80 km hraða þegar leyfður hraði er 60 km. Frekar ætti að líta á þetta sem einhvers konar óþol gagnvart því að láta bílinn á undan stjórna hraða sínum; hinn frjálsi förusveinn getur ekki liðið slíkt og tekur því sífellt fram úr jafnvel þótt hann brjóti með því umferðarlögin og uppskeri ekki annað en lengri biðtíma við umferðarljósin. Hluti af þessum akstursstíl eru sífelld akreinaskipti eða svig sem er síst til þess fallið að auka öryggi í umferðinni. Tilgangslaust svig á milli akreina er áberandi í umferðinni í Reykjavík en niðurstaðan af slíku svigi er jafnan hin sama og af öðrum framúrakstri; örlítið lengri biðtími við umferðarljósin. Óþolið er sérkenni íslenskrar umferðarmenningar. Í nágrannalöndunum er þetta ekki svona. Í Svíþjóð nema bílar alltaf staðar við gagnbraut, jafnvel þó að enginn fótgangandi sé á leið yfir hana þá stundina. Í Danmörku bíða bílstjórar þolinmóðir eftir því að beygja þangað til hvert einasta reiðhjól er farið hjá. Í Reykjavík nenna þeir ekki einu sinni að bíða eftir því að gult ljós verði að grænu heldur æða af stað þó að gangandi vegfarandi sé á miðri leið yfir götuna. Ekki er það til að spara tíma í raun; það er ekki hægt í þéttbýli þar sem umferðarljós eru á hverju strái. Hér er á ferð óþolið; óttinn við að þurfa að bíða eftir öðrum. Óþolið skýrir eflaust margt í íslensku þjóðlífi, ekkert síður en umferðinni. Kannski var það út af óþolinu að íslenskir bankar þöndu sig út og skuldsettu sig upp fyrir haus á fáeinum árum. Þar var ekki farið á jöfnum og rólegum hraða til að forða því að of geyst væri farið. Þetta var kallað íslenska áræðið og ráðamenn sungu því lof og prís í ræðum. Tortryggni danskra blaðamanna í garð áræðisins var auðskiljanleg. Þeir búa líka í landi þar sem bílar nenna að bíða eftir reiðhjólum. Ekkert fyrirlíta íslenskir athafnamenn meira en sænska bílstjórann sem stoppar við gangbraut. „Árangur áfram, ekkert stopp" er slagorð þeirra. Þess vegna vilja þeir nýta allar náttúruauðlindir Íslands núna strax og skilja ekkert eftir, eins og Andri Snær Magnason benti á í ágætri blaðagrein hér á dögunum. Maður kannast við þessa kókaínfíkla úr umferðinni; þetta eru mennirnir sem geta bara ekki beðið og þurfa að vinna hvert einasta kapphlaup að næsta umferðarljósi. Kapphlaupið hefur tilgang í sjálfu sér; að þurfa ekki að bíða eftir neinum. Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki afmörkuð klíka í samfélaginu heldur kosnir til valda af fólki sem hugsar eins og þeir. Maður sér þessa kjósendur á hverjum degi í umferðinni. Þeir voru bakland útrásarvíkinganna; hópurinn sem trúir á íslenska áræðið. En áræðið er í rauninni óþol, vantrú á þann margsannaða sannleik að flas gerir engan flýti, að kemst þótt hægt fari, að það hefst með hægðinni. Hinir óþolinmóðu læra ekki neitt á því að lenda við hliðina á sama „sleðanum" aftur og aftur enda vilja þeir ekkert læra - þeir vita það eitt að þeir geta bara alls ekki beðið. Er það Íslendingseðlið sem birtist í óþolinu? Eða er þetta fyrst og fremst tiltekinn hópur sem lætur svona? Sá sem getur ekki beðið hefur vissulega tileinkað sér hugmyndafræði einstaklingshyggjunnar ofan í kjölinn; fyrir honum er umferðin ekki ferli sem á að lokum að skila öllum á áfangastað heldur samkeppni, kapphlaup þar sem sá fljótasti vinnur þó að vinningurinn sé ekki annar en sá að fá að hafa bílinn örlítið lengur í lausagangi á rauðu ljósi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Það er sérkennileg tilfinning að keyra á leyfðum hámarkshraða eftir hraðbraut í Reykjavík og horfa á hvern bílinn á fætur öðrum æða fram úr. Ekki er það gert til þess að komast hraðar á áfangastað því að undantekningarlaust rekst maður á alla þessa bíla aftur á næstu umferðarljósum. Nei, framúraksturinn er eingöngu framúrakstursins vegna og hefur enga praktíska þýðingu. Svona einkennileg hegðun kallar vissulega á skýringu en hún er ekki auðfundin. Þetta nær því varla að teljast hraðafíkn; henni er ekki svalað við það að keyra á 80 km hraða þegar leyfður hraði er 60 km. Frekar ætti að líta á þetta sem einhvers konar óþol gagnvart því að láta bílinn á undan stjórna hraða sínum; hinn frjálsi förusveinn getur ekki liðið slíkt og tekur því sífellt fram úr jafnvel þótt hann brjóti með því umferðarlögin og uppskeri ekki annað en lengri biðtíma við umferðarljósin. Hluti af þessum akstursstíl eru sífelld akreinaskipti eða svig sem er síst til þess fallið að auka öryggi í umferðinni. Tilgangslaust svig á milli akreina er áberandi í umferðinni í Reykjavík en niðurstaðan af slíku svigi er jafnan hin sama og af öðrum framúrakstri; örlítið lengri biðtími við umferðarljósin. Óþolið er sérkenni íslenskrar umferðarmenningar. Í nágrannalöndunum er þetta ekki svona. Í Svíþjóð nema bílar alltaf staðar við gagnbraut, jafnvel þó að enginn fótgangandi sé á leið yfir hana þá stundina. Í Danmörku bíða bílstjórar þolinmóðir eftir því að beygja þangað til hvert einasta reiðhjól er farið hjá. Í Reykjavík nenna þeir ekki einu sinni að bíða eftir því að gult ljós verði að grænu heldur æða af stað þó að gangandi vegfarandi sé á miðri leið yfir götuna. Ekki er það til að spara tíma í raun; það er ekki hægt í þéttbýli þar sem umferðarljós eru á hverju strái. Hér er á ferð óþolið; óttinn við að þurfa að bíða eftir öðrum. Óþolið skýrir eflaust margt í íslensku þjóðlífi, ekkert síður en umferðinni. Kannski var það út af óþolinu að íslenskir bankar þöndu sig út og skuldsettu sig upp fyrir haus á fáeinum árum. Þar var ekki farið á jöfnum og rólegum hraða til að forða því að of geyst væri farið. Þetta var kallað íslenska áræðið og ráðamenn sungu því lof og prís í ræðum. Tortryggni danskra blaðamanna í garð áræðisins var auðskiljanleg. Þeir búa líka í landi þar sem bílar nenna að bíða eftir reiðhjólum. Ekkert fyrirlíta íslenskir athafnamenn meira en sænska bílstjórann sem stoppar við gangbraut. „Árangur áfram, ekkert stopp" er slagorð þeirra. Þess vegna vilja þeir nýta allar náttúruauðlindir Íslands núna strax og skilja ekkert eftir, eins og Andri Snær Magnason benti á í ágætri blaðagrein hér á dögunum. Maður kannast við þessa kókaínfíkla úr umferðinni; þetta eru mennirnir sem geta bara ekki beðið og þurfa að vinna hvert einasta kapphlaup að næsta umferðarljósi. Kapphlaupið hefur tilgang í sjálfu sér; að þurfa ekki að bíða eftir neinum. Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki afmörkuð klíka í samfélaginu heldur kosnir til valda af fólki sem hugsar eins og þeir. Maður sér þessa kjósendur á hverjum degi í umferðinni. Þeir voru bakland útrásarvíkinganna; hópurinn sem trúir á íslenska áræðið. En áræðið er í rauninni óþol, vantrú á þann margsannaða sannleik að flas gerir engan flýti, að kemst þótt hægt fari, að það hefst með hægðinni. Hinir óþolinmóðu læra ekki neitt á því að lenda við hliðina á sama „sleðanum" aftur og aftur enda vilja þeir ekkert læra - þeir vita það eitt að þeir geta bara alls ekki beðið. Er það Íslendingseðlið sem birtist í óþolinu? Eða er þetta fyrst og fremst tiltekinn hópur sem lætur svona? Sá sem getur ekki beðið hefur vissulega tileinkað sér hugmyndafræði einstaklingshyggjunnar ofan í kjölinn; fyrir honum er umferðin ekki ferli sem á að lokum að skila öllum á áfangastað heldur samkeppni, kapphlaup þar sem sá fljótasti vinnur þó að vinningurinn sé ekki annar en sá að fá að hafa bílinn örlítið lengur í lausagangi á rauðu ljósi.