Körfubolti

Páll Axel: Spiluðum ekki vel en það komu góðir kaflar

Elvar Geir Magnússon skrifar
Páll Axel skoraði 29 stig í kvöld.
Páll Axel skoraði 29 stig í kvöld.

Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í Grindavíkurliðinu sem vann ÍR í kvöld og komst þar með í úrslitaleik Subway-bikarsins. Leikurinn endaði 91-78 en ÍR-ingar voru vel inni í leiknum og munurinn var fjögur stig fyrir síðasta leiklutann.

„Þetta var ströggl. við vorum ekki að spila vel þó það hafi komið góðir kaflar," sagði Páll. „Við misstum dampinn aðeins í lok fyrri hálfleiks. Við vorum með hausinn í rassgatinu og þeir gerðu leik úr þessu en á endanum var þetta tiltölulega öruggt. Þetta var hörkuleikur og þannig eiga bikarleikir að vera."

En af hverju missti liðið dampinn? „Við spiluðum vel í byrjun en ÍR-ingar virtust að sama skapi ekki alveg til í verkefnið. Ég veit ekki hvað gerist svo, þeir spýta bara í lófana og við töpuðum boltanum í tíma og ótíma. Ég vil ekki meina að þeir hafi verið að spila svona góða vörn, við bara réttum þeim boltanum og þá jafnaðist leikurinn," sagði Páll.

Grindavík mætir Snæfelli í bikarúrslitaleiknum en Snæfellingar unnu Keflavík á sunnudag. „Það verður áskorun að mæta Snæfelli í þessum úrslitaleik. Ég sá leik þeirra gegn Keflavík þar sem þeir virkuðu mjög ferskir. Mér lýst vel á þetta. Við erum nokkuð brattir eftir gott gengi að undanförnu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×