Lífið

Gangárinn veit allt um Flateyri

Á morgun verða gestir leiddir um Flateyri þar sem umhverfið vaknar til lífsins og ýmsar kynjaverur birtast samhliða gönguferðinni.
Á morgun verða gestir leiddir um Flateyri þar sem umhverfið vaknar til lífsins og ýmsar kynjaverur birtast samhliða gönguferðinni.

Danstvíeikið Vaðall, sem samanstendur af dönsurunum og danshöfundunum Aðalheiði Halldórsdóttur og Valgerði Rúnarsdóttur, sýnir verkið Var það Gangári? á Flateyri á morgun.

Verkið kalla þær dansgöngu. Gangárinn, eða leiðsögumaðurinn Ragnar Ísleifur Bragason, leiðir gesti í um klukkustunda langa gönguferð um bæinn með sögum af götum, húsum, fólki, vættum og hverju öðru sem á leið hans verður. Ef vel verður að gáð sjá áhorfendur umhverfið vakna til lífsins og ýmsar kynjaverur birtast samhliða gönguferðinni. Þar mun bregða fyrir dans, tónlist, leik, söng og hinum ýmsu gjörningum.

Gangárinn varð til fyrir tilstilli Reykjavík Dansfestival í fyrra en þá skapaði Vaðall samskonar leiðsögn um Reykjavík. Verkið þótti ganga með eindæmum vel og kviknaði sú hugmynd að fara með Gangárann af stað í ferðalag út fyrir borgarmörkin.

Verkið var sýnt á Humarhátíð á Höfn í Hornafirði fyrr í sumar og nú hefur hópurinn skapað verk útfrá sögu Flateyrar. Hugmyndin er að virkja bæjarbúa og fólk frá nærliggjandi bæjum eða sveitum til þess að taka þátt í viðburðinum. Hópurinn hlaut styrk frá Menningarráði Vestfjarða og listamannalaun til að framkvæma viðburðinn.

Gangáranum sjálfum er lýst sem náunga sem hefur verið uppi frá því fyrstu menn muna. Hann man allt sem gerst hefur, þekkir hvern krók og kima hvert sem litið er til sjávar eða sveita. Saga Flateyrar er hans helsta áhugasvið um þessar mundir og mun hann láta ljós sitt skína á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.