Innlent

Ósáttur flugfarþegi: „Þetta er búið að taka á taugarnar“

Erla Hlynsdóttir skrifar
Áætlað er að farþegar frá Berlín komist á leiðarenda tuttugu klukkustundum á eftir áætlun
Áætlað er að farþegar frá Berlín komist á leiðarenda tuttugu klukkustundum á eftir áætlun
„Við bara biðum og biðum og biðum í troðfullri vél í sjóðandi hita. Við sátum í vélinni í rúma fjóra tíma áður en okkur var tilkynnt að vélin færi ekki í loftið. Allan þennan tíma færðu flugþjónarnir okkur bara vatn," segir ósáttur viðskiptavinur Iceland Express sem átti bókað flug frá Berlín í gærkvöldi. Vélin átti að fara klukkan átta um kvöldið að staðartíma en farþegar bíða enn.

„Þetta er búin að vera meira en hálfs sólarhrings seinkunn. Fólk hér er mjög pirrað" segir flugfarþeginn var á leið aftur á Schoenfeld-flugvöllinn í Berlín þegar blaðamaður náði tali af honum.

Gríðarlegar seinkanir hafa orðið á flugi síðustu daga. Á vef Iceland Express hefur verið birt tilkynning þar sem segir: „Vegna slæmra veðurskilyrða í N-Evrópu hefur orðið talsverð röskun á flugáætlun Iceland Express." Þar eru einnig birtar upplýsingar um breytta ferðaáætlun fyrirtækisins.

Auk seinkana á flugi frá Berlín hafa verið seinkanir á vélum frá London, Kaupmannahöfn og New York, en vél flugfélagsins er föst á JFK-flugvellinum vegna mikillar flugumferðar og veðurs, að því er kemur fram á vef Iceland Express.

Tuttugu tíma seinkun

Áætlað var að full vél færi frá Berlín í gærkvöldi og fóru farþegar um borð í vélina um miðnættið. Þegar klukkan var fjögur var þeim sagt að ekki yrði flogið að sinni. Þeir þurftu þá sjálfir að koma sér á hótel þar sem Iceland Express greiddi fyrir gistinguna. „Fólk er sérstaklega óánægt með að okkur hafi ekki bara verið tilkynnt strax um klukkan eitt að það yrði ekki flogið," segir farþeginn. Stór hluti biðarinnar var vegna þess að afísa þurfti fjölda véla og takmarkaður fjöldi starfsmanna til að sinna því yfir nóttina.

„Við erum núna að fara að taka rútu á kostnað Iceland Express á flugvöllinn aftur. Ef áætlanir standast verður þetta um tuttugu tíma seinkunn," segir farþeginn.

Lyfin föst í farangrinum

Einn farþeganna var kona sem nýverið hafði farið í hjartaþræðingu og geymdi lyfin sín í farangrinum. Vegna þess hversu fáir voru á næturvakt á flugvellinum fengu farþegarnir ekki farangurinn sinn áður en þeir fóru á hótelið um nóttina. „Þarna var kona sem fékk ekki lyfin sín," segir farþeginn en eftir því sem hann kemst næst varð konunni þó ekki meint af því að þurfa að bíða eftir lyfjunum.

„Þetta er búið að taka á taugarnar," segir farþeginn sem hlakkar til að komast aftur heim til Íslands og vonar að ekki komi til frekari seinkanir.



Viðbót klukkan 14:20:

Kristín Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Iceland express, segir í samtali við Vísi.is að vélin hafi verið í röð flugvéla sem hafi verið að bíða eftir því að komast í loftið. „Röðin gekk afar hægt og seint fyrir sig og margar vélar biðu afísingar, og því var ákveðið að fara með farþegana upp á hótel."

Þá hafi alþjóðlegar reglur um hvíldartíma flugáhafnarinnar einnig sett strik í reikninginn þegar ljóst var að vélin var búin að bíða í röðinni í fjóra klukkutíma. „Okkur þykir afar leitt að farþegarnir hafi þurft að tefjast og við reynum að gera okkar besta í svona aðstæðum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×