Kjötbollur og söngur Gerður Kristný skrifar skrifar 28. ágúst 2010 00:01 Þessi vika var skemmtileg í lífi fjölskyldunnar því þá hóf frumburðurinn skólagöngu. Ég fékk mér far með skólarútunni fyrsta daginn og fylgdi syni mínum inn í stofu. Eitthvað súrnaði okkur mæðrunum í augum frammi á gangi eftir að hafa kvatt afkvæmin. Þau voru allt í einu eitthvað svo lítil og skólinn svo stór. Þegar ég sótti drenginn síðdegis spurði ég hann hvernig hefði verið þennan fyrsta skóladag en það varð fátt um svör. „Það er löng saga," lét barnið sér nægja að segja. Það var ekki fyrr en um kvöldið að ég fékk að heyra lagið sem sungið er í lok hvers skóladags og að það hefðu verið kjötbollur í matinn. Auðvitað reyndist allt hafa gengið vel. Sjálf var ég aðeins nokkrar vikur í sex ára bekknum áður en ég var færð upp um bekk. Mér skilst að svona tilfæringar þyki ekki lengur jafnsjálfsagðar nú og í þá daga. Til dæmis er nú tekið meira tillit til félagslífs og - þroska barna en tíðkaðist. Margir fullyrða líka að þótt skólavistin gangi ef til vill snurðulaust fyrir sig fyrstu veturna hjá þeim sem eru ári yngri en bekkjarfélagarnir sé hætt við að eitthvað komi upp á þegar viðkvæm unglingsárin ganga í garð. Og þannig var það einmitt hjá mér. Árið 1982 rann upp maídagur bjartur og fagur og kennarinn leyfði okkur krökkunum að koma með nammi og kassettur að hlusta á. Ég var ekki sein að kippa með mér uppáhaldskassettunni minni og dró góssið stolt fram um leið og leyfi var gefið; Deió með Ladda. Hjúkrunarfræðingur á Barnadeild Landspítalans hafði gefið mér hana þegar ég lá þar inni um haustið og Laddi hafði svo sannarlega gert sjúkrahúsdvölina þolanlegri en ella. Ég hélt að allir yrðu yfir sig kátir með Deió en bekkjarsystkini mín áttu ekki orð. Hneyksluð hristu þau höfuðið og spurðu mig hvort ekki væri í lagi með mig - spurning sem ég hef aldrei almennilega vitað svarið við. En Deió kom ekki til greina, svo mikið skildi ég. Djúp gjá hafði myndast milli bekkjarsystkina minna og mín. Sum þeirra voru þegar orðin 13 ára en ég var 11 ára, enda enn mánuður í 12 ára afmælið. Þau voru orðin unglingar. Ekki ég. Og þessir unglingar ætluðu sér sko ekki að hlusta á Ladda, heldur Queen. Queen! Ekki sungu þeir um Búkollu, hvað þá Skúla Óskarsson! Ég stakk kassettunni minni aftur ofan í skólatösku en hélt auðvitað áfram að vera Laddamegin í lífinu. Svona getur skólinn einmitt stundum verið en oftast er hann auðvitað bráðskemmtilegur. Fyrst og fremst er skólinn auðvitað ákaflega löng saga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Holur í malbiki og tannlækningar Sigþór Sigurðsson Skoðun Heimatilbúið „tjón“ Landsvirkjunar Vala Árnadóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun
Þessi vika var skemmtileg í lífi fjölskyldunnar því þá hóf frumburðurinn skólagöngu. Ég fékk mér far með skólarútunni fyrsta daginn og fylgdi syni mínum inn í stofu. Eitthvað súrnaði okkur mæðrunum í augum frammi á gangi eftir að hafa kvatt afkvæmin. Þau voru allt í einu eitthvað svo lítil og skólinn svo stór. Þegar ég sótti drenginn síðdegis spurði ég hann hvernig hefði verið þennan fyrsta skóladag en það varð fátt um svör. „Það er löng saga," lét barnið sér nægja að segja. Það var ekki fyrr en um kvöldið að ég fékk að heyra lagið sem sungið er í lok hvers skóladags og að það hefðu verið kjötbollur í matinn. Auðvitað reyndist allt hafa gengið vel. Sjálf var ég aðeins nokkrar vikur í sex ára bekknum áður en ég var færð upp um bekk. Mér skilst að svona tilfæringar þyki ekki lengur jafnsjálfsagðar nú og í þá daga. Til dæmis er nú tekið meira tillit til félagslífs og - þroska barna en tíðkaðist. Margir fullyrða líka að þótt skólavistin gangi ef til vill snurðulaust fyrir sig fyrstu veturna hjá þeim sem eru ári yngri en bekkjarfélagarnir sé hætt við að eitthvað komi upp á þegar viðkvæm unglingsárin ganga í garð. Og þannig var það einmitt hjá mér. Árið 1982 rann upp maídagur bjartur og fagur og kennarinn leyfði okkur krökkunum að koma með nammi og kassettur að hlusta á. Ég var ekki sein að kippa með mér uppáhaldskassettunni minni og dró góssið stolt fram um leið og leyfi var gefið; Deió með Ladda. Hjúkrunarfræðingur á Barnadeild Landspítalans hafði gefið mér hana þegar ég lá þar inni um haustið og Laddi hafði svo sannarlega gert sjúkrahúsdvölina þolanlegri en ella. Ég hélt að allir yrðu yfir sig kátir með Deió en bekkjarsystkini mín áttu ekki orð. Hneyksluð hristu þau höfuðið og spurðu mig hvort ekki væri í lagi með mig - spurning sem ég hef aldrei almennilega vitað svarið við. En Deió kom ekki til greina, svo mikið skildi ég. Djúp gjá hafði myndast milli bekkjarsystkina minna og mín. Sum þeirra voru þegar orðin 13 ára en ég var 11 ára, enda enn mánuður í 12 ára afmælið. Þau voru orðin unglingar. Ekki ég. Og þessir unglingar ætluðu sér sko ekki að hlusta á Ladda, heldur Queen. Queen! Ekki sungu þeir um Búkollu, hvað þá Skúla Óskarsson! Ég stakk kassettunni minni aftur ofan í skólatösku en hélt auðvitað áfram að vera Laddamegin í lífinu. Svona getur skólinn einmitt stundum verið en oftast er hann auðvitað bráðskemmtilegur. Fyrst og fremst er skólinn auðvitað ákaflega löng saga.