Körfubolti

Ingi Þór: Við ætlum að búa til sögu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórson, þjálfari Snæfells.
Ingi Þór Steinþórson, þjálfari Snæfells, sá sína menn tapa þriðja heimaleiknum á stuttum tíma fyrir KR og mistakast að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandmeistaratitilinn. KR vann 76-74 og því verður oddaleikur í DHL-höll þeirra KR-inga á fimmtudagskvöldið.

„Varnarvinnan var frábær hjá okkur í öllum leiknum. Við fengum tvo góð skot til þess að klára þetta en við vorum því miður ekki með menn til þess að klára þau. Svona er bara baráttan á milli þessara liða því þetta eru tvö frábær lið. Við ætlum að búa til sögu og gera þetta að fyrstu seríunni sem vinnst öll á útivelli," sagði Ingi Þór í viðtali við Arnar Björnsson á Stöð 2 Sport eftir leikinn í kvöld.

„Þetta er búið að vera stórfurðulegt og það virðist ekki skipta neinu máli hvar liðinu eru að spila. Þetta er rosalega barátta í þessu og þessi leikur tók svakalega á fyrir bæði lið. Nú er tveir dagar fram að leiknum á fimmtudaginn og við mætum með grimmt lið og fáum fullan stuðning þar. Við erum búnir að vinna tvisvar sinnum þar og höfum fulla trú að við getum unnið þar aftur," sagði Ingi.

„Þeir fá að spila mjög fast á okkar menn út á velli og mér fannst þeir fara fullmikið á vítalínuna en það var kannski okkar klaufagangur," sagði Ingi sem er bjartsýnn fyrir oddaleikinn.

„Mér líður vel í KR-heimilinu og það er fínt að vera í KR-heimilinu. Vesturbærinn er fallegur og það er alltaf gott að koma þangað. Við ætlum að vinna þetta á fimmtudaginn," sagði Ingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×