Innlent

Greiða arf fyrirfram til þess að komast hjá erfðafjárskatti

Hafsteinn Hauksson skrifar

Gífurleg aukning hefur orðið á því að fólk fái arf greiddan fyrirfram eftir að alþingi samþykkti að tvöfalda erfðafjárskatt. Þeir sem fá erfðafjárskýrslur sínar afgreiddar fyrir áramót sleppa við hækkunina.

Efðafjárskattur hækkar úr 5 prósentum í 10 prósent um áramótin. Síðan Alþingi samþykkti þessa breytingu þann 18. þessa mánaðar hefur verið meiri erill en venjulega hjá sýslumannsembættum víða um land, þar sem fólk hefur í einhverjum tilfellum beðið í röðum eftir að leggja fram erfðafjárskýrslur vegna fyrirframgreidds arfs.

Slíkar voru annirnar hjá Sýslumanninum í Reykjavík að hann átti ekki lausa stund til að veita fréttastofu viðtal í dag.

Alexander G. Eðvardsson, yfirmaður skattasviðs KPMG, hefur orðið var við þessa aukningu.

Hann segir umsóknirnar skipa tugum hjá sínu fyrirtæki, hingað til hafa þær verið örfáar yfir árið.

Lögum samkvæmt miðast álagning skattsins við daginn þegar sýslumaður áritar erfðafjárskýrsluna, og því verður arfurinn skattlagður miðað við helmingi lægra hlutfall ef erfingjum tekst að fá afgreiðslu fyrir áramótin. Markmiðið er víðast að afgreiða flesta, eða alla, sem uppfylla skilyrði og skila öllum tilskyldum gögnum fyrir áramótin.

Alexander segir þetta sömuleiðis geta haft áhrif á skattbyrði vegna auðlegðarskatts.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×