Handbolti

Sturla: Tel að ég geti bætt mig í íslensku deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sturla í Valsbúningnum.
Sturla í Valsbúningnum. Valur
Sturla Ásgeirsson gerði í gær eins árs samning við Val og leikur því með félaginu í N1-deild karla á næstu leiktíð. Sturla lék síðast með Düsseldorf í þýsku úrvalsdeildinni og þar áður með Árósum í Danmörku.

„Ég er núna búinn að vera úti lengi og hef prófað ýmislegt," sagði Sturla í samtali við Fréttablaðið. „Ég tilkynnti svo forráðamönnum Düsseldorf að ég hefði ekki áhuga á að vera áfram með liðinu ef það myndi falla úr deildinni sem svo gerðist. Aðrir kostir sem mér stóðu til boða voru ekki nægilega spennandi og því ákvað ég að koma heim," bætti hann við. „Þar að auki var ýmislegt hjá Düsseldorf ekki eins og gott og ég bjóst við."

Sturla segir þó að dvölin í Þýskalandi hafi verið góð. „En ég nenni þó ekki að vera í útlöndum bara til þess eins að vera í útlöndum. Ég tel mig vera betur settan heima í alvöru félagi með flotta aðstöðu og þjálfara sem ég þekki vel. Ég hef lítinn áhuga á að vera fastur í litlu þorpi í slöku liði."

Hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu og tók þátt í Ólympíuævintýrinu í Peking sem og á Evrópumeistaramótinu í Austurríki. Hann stefnir á að halda áfram að spila með landsliðinu.

„Ég er alls ekki hættur og er enn stórhuga. Ég vil enn spila fyrir landsliðið og taka þátt í þeim verkefnum sem eru framundan hjá því. Ég held að það skemmi ekki fyrir mér að koma heim, þó svo að ég verði ekki að spila við bestu leikmenn heims í hverri viku. Ég á möguleika á að vera í stóru hlutverki hjá Val sem er afar metnaðarfullt félag sem ætlar sér langt á næstu leiktíð. Ég sé fyrir mér að ég geti bætt mig í íslensku deildinni," sagði Sturla sem ætlar að halda áfram að mennta sig hér á landi.

„Ég var í háskólanámi í Danmörku og hef hug á að halda áfram í því. Ég er allavega búinn að sækja um og vona að ég komist inn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×