Lífið

Ný andlit á svið í Þjóðleikhúsið í vor

„Ég heyrði það einu sinni frá reyndum leikara að það væri frábært að geta planað líf sitt hálft ár fram í tímann í þessu starfi og nú get ég planað næstum eitt ár svo ég er gríðarlega sáttur," segir Ævar Þór Benediktsson, nýútskrifaður leikari.

Ævar hefur ásamt skólafélögum sínum, þeim Hilmi Jenssyni og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur, fengið burðarhlutverk í nýjum söngleik eftir Ólaf Hauk Símonarson sem sýndur verður á fjölum Þjóðleikhússins næsta vor. Einnig leika Hannes Óli Ágústsson og Heiða Ólafsdóttir í verkinu en þau eru einnig að stíga sín fyrstu skref í Þjóðleikhúsinu en bæði útskrifuðust þau sem leikarar fyrir ári. Verkið ber nafnið Bjart með köflum og er eins konar sveitasöngleikur byggður á bók Ólafs Hauks, Rigning með köflum. Leikstjóri verður Þórhallur Sigurðsson en eins og kunnugt er hafa þeir félagarnir verið iðnir við að sjá landanum fyrir leikritum, eins og til dæmis með Gauragangi og Þreki og tárum.

„Þetta er draumur í dós og brosið er varla búið að fara af mér síðan ég fékk fréttirnar," segir Heiða Ólafsdóttir en hún hlakkar gríðarlega til að byrja æfingar á verkinu og sýna hvað í henni býr. Hilmir Jensson tekur í sama streng en hann leikur aðalhlutverkið í söngleiknum. „Ég er alveg sáttur og það er auðvitað mikill heiður að vera valinn til að starfa með öllu þessu færa fólki hjá Þjóðleikhúsinu. Maður verður að fylgjast vel með og læra af þeim bestu."

Þau eru sammála um að það sé mikilvægt að nýta tímann vel innan veggja Þjóðleikhússins og eru öll staðráðin í að gera sitt besta úr þessu frábæra tækifæri.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.