Körfubolti

Helgi Jónas: Sýndum karakter í lokin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Grindvíkingar fagna í kvöld. Mynd/Valli
Grindvíkingar fagna í kvöld. Mynd/Valli

„Þetta var mun erfiðari leikur en tölurnar gefa til kynna og við komum hreinlega ekki tilbúnir til leiks,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga, ánægður með sigurinn í kvöld.

Grindvíkingar unnu góðan sigur á Fjölni ,86-69, í tíundu umferð Iceland-Express deild karla en leikurinn fór fram í Dalhúsum í Grafarvogi.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn virkilega illa og voru á tímabili 15 stigum undir.

„Það hefur loðað aðeins við okkur í vetur að mæta ekki tilbúnir í leikina. Í síðari hálfleiknum fórum við loksins að spila vörn og sýnum fínan karakter hérna í lokin. Mínir leikmenn eiga samt sem áður mikið inni og geta spilað mun betur“.

Grindvíkingar áttu í miklum erfileikum með að koma boltanum í körfuna í fyrri hálfleiknum en það breyttist heldur betur í þeim síðari.

„Ég sagði við strákana í hálfleik að ég vildi sjá öll skot syngja í netinu í seinni hálfleiknum því þetta var alveg skelfilegt í byrjun leiks,“ sagði Helgi.

Liðið hefur verið að spila gríðarlega vel í vetur og eru með 16 stig í öðru sæti deildarinnar.

„Ég er nokkuð sáttur með hvar við erum í deildinni en það er alltaf hægt að gera betur og við ætlum að halda áfram að bæta okkar leik,“ sagði Helgi Jónas eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×