Sport

Lemaitre besti frjálsíþróttamaður Evrópu á árinu 2010

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christophe Lemaitre með gullin sem hann vann í Barcelona.
Christophe Lemaitre með gullin sem hann vann í Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franski spretthlauparinn Christophe Lemaitre hefur verið kosinn besti frjálsíþróttamaðurinn í Evrópu á þessu ári en hann hafði betur í baráttunni við norska spjótkastarann Andreas Thorkildsen og breska langhlauparann Mo Farah.

Lemaitre er aðeins tvítugur og var kosinn efnilegasti frjálsíþróttamaður Evrópu fyrir aðeins tólf mánuðum. Hann stóð heldur betur undir því nafni á þessu ári því hann vann meðal annars þrjú gull á HM í Barcelona.

Lemaitre vann 100 metra hlaup, 200 metra hlaup og boðhlaup með franska landsliðinu á EM í Barcelona en engum hafði áður tekist að vinna þrjú gull á einu og sama Evrópumótinu.

Lemaitre varð líka fyrr á árinu fyrsti hvíti maðurinn til þess að hlaupa 100 metrana undir tíu sekúndum en enginn í Evrópu hljóp hraðar í 100 metra hlaupi (9,97 sek.) eða 200 metra hlaupi (20,16 sek.) á þessu ári.

Bestu frjálsíþróttamenn Evrópu árið 2010:

1. Christophe Lemaitre, Frakklandi

2. Andreas Thorkildsen, Noregi

3. Mo Farah, Bretlandi

4. Teddy Tamgho, Frakklandi

5. David Greene, Bretlandi

6. Christian Reif, Þýskalandi

7. Aleksandr Shustov, Rússlandi

8. Piotr Malachowski, Póllandi

9. Marcin Lewandowski, Póllandi

10. Renaud Lavillenie, Frakklandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×