Lífið

Abba lifnar við

Endurkoma aldarinnar Víst er að Abba-aðdáendur út um allan heim myndu tryllast af gleði ef sveitin kæmi saman á ný.
Endurkoma aldarinnar Víst er að Abba-aðdáendur út um allan heim myndu tryllast af gleði ef sveitin kæmi saman á ný.

Stórtíðinda gæti verið að vænta úr heimi popptónlistar. Sænsku súperstjörnurnar í Abba eru sagðar vera að hugsa alvarlega um að snúa aftur í sviðsljósið.

Anni-Frid Lyngstad, best þekkt sem Frida, gaf Abba-aðdáendum hressilega undir fótinn í viðtali við breska blaðið Daily Express. Hún sagðist ræða það oft og ítrekað við Agnethu Fältskog hvort þær ættu ekki að taka lagið saman á ný. Þær Frida og Agnetha hafa staðið í vegi fyrir að sveitin komi saman en þær hafa margoft lýst því yfir að þær séu fyrir löngu hættar öllum afskiptum af tónlistarbransanum. „Það væri frábært að gera eitthvað með Agnethu. Ef við myndum gera eitthvað þá yrði erfitt að standast pressuna með Abba, þetta yrði aldrei neitt sem flygi lágt.“

Björn og Benny voru eiginmenn Agnethu og Fridu á þeim tíma sem frægðarsól Abba reis hæst. Sveitin hætti hins vegar með miklum látum árið 1983 og hefur margoft verið boðnar himinháar fjárhæðir fyrir að koma aftur saman. Björn og Benny hafa verið duglegir við að semja tónlist síðan leið þeirra lá frá hjónahljómsveitinni. Eina skiptið sem sveitin sást saman var árið 2008 þegar allir meðlimir sveitarinnar mættu á frumsýningu kvikmyndarinnar Mamma Mia! í London. Björn sagði þá að hljómsveitin myndi aldrei koma aftur. „Peningar eru ekki vandamálið í þeim efnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.