Lífið

Kraumur gaf sex verðlaun

Sex flytjendur hlutu Kraumsverðlaunin árið 2010 fyrir plötur sínar.fréttablaðið/vilhelm
Sex flytjendur hlutu Kraumsverðlaunin árið 2010 fyrir plötur sínar.fréttablaðið/vilhelm
Sex flytjendur fengu Kraumsverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í gær, en það voru Apparat Organ Quartet, Ég, Nolo, Ólöf Arnalds, Daníel Bjarnason og Jónas Sigurðsson. Alls voru tuttugu plötur sem gefnar voru út á þessu ári í pottinum.

Þetta var þriðja árið í röð sem Kraumsverðlaunin voru afhent. Þau eru veitt þeim verkum í íslenskri plötuútgáfu sem þótt hafa framúrskarandi og spennandi á árinu. Þeir sem fá verðlaunin hljóta stuðning frá Kraumi í formi plötukaupa og kynningu á verðlaunaplötunum á erlendum vettvangi. Á meðal þeirra sem hlutu ekki náð fyrir augum dómnefndarinnar í ár voru Agent Fresco, Amiina, Retro Stefson og Seabear.

Öll þrjú árin sem Kraumsverðlaunin hafa verið afhent hafa plöturnar verið sex í staðinn fyrir fimm, eins og lagt var upp með til að byrja með. Samkvæmt reglum Kraumslistans hefur dómnefnd leyfi til að fjölga verðlaunaplötum ef sérstakt tilefni þykir til.

Þær sex plötur sem urðu fyrir valinu í fyrra voru með þeim Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, Bloodgroup, Helga Hrafni Jónssyni, Hildi Guðnadóttur, Hjaltalín og Morðingjunum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.