Matur

Kjúklingabringa í jógúrt-karrísósu með tvenns konar salati

Uppskriftin að réttinum er hér fyrir neðan.
Uppskriftin að réttinum er hér fyrir neðan.

Veitingastaðurinn Spíran í Garðheimum var opnaður í júní. Þar er boðið upp á holla rétti úr fersku hráefni sem flest kemur beint frá býli. Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumaður er yfirkokkur Spírunnar.

"Við bjóðum upp á einn rétt dagsins og síðan nokkur salöt sem fólk getur blandað saman að vild," segir Hinrik.

"Við reynum að nota sem mest beint frá býli, bæði grænmeti og kjöt," segir Hinrik og bætir við að hæg séu heimatökin. "Garðheimar selja býlunum ýmislegt og því eigum við oft ferð út á land. Þá tökum við til baka sveppi, tómata, paprikur og núna rótarávexti svo eitthvað sé nefnt," segir hann en Spíran er einnig með eigin grænmetisgarð.

Spíran er á efri hæð Garðheima þar sem áður hafa verið ýmist jólahorn eða föndurhorn. "Nú er öll hæðin lögð undir veitingastaðinn og nóg að gera," segir Hinrik og telur að dags daglega komi um 50 til 80 manns á staðinn. "Meirihlutinn þó seinni hluta vikunnar."

Spíran er opin frá 11 til 17 alla daga en boðið er upp á heita rétti í hádeginu á virkum dögum. Annars býður Spíran einnig upp á úrval smárétta, súpu dagsins, og sérútbúnar lokur. "Þá bjóðum við á föstudögum upp á sushi frá Osushi. Okkur fannst rétt að færa þá menningu hér ofar í bæinn," segir Hinrik glaðlega og bætir við að allt bakkelsi Spírunnar sé heimabakað.

Og hvers konar fólk sækir staðinn?

"Hingað sækir alls konar fólk. Frá sendibílstjórum sem þykir gott að geta lagt í rúmgóð stæði, til heilu saumaklúbbanna og bankafólks úr Mjóddinni," svarar Hinrik.

Hann minnir að lokum á að Spíran og Garðheimar standi oft fyrir skemmtilegum námskeiðum. Í haust hafi til dæmis verið kennd sultu- og pestógerð.

Nánari upplýsingar má finna á spiran.is.

solveig@frettabladid.is

Hinrik Carl.

Kjúklingabringa í jógúrt-karrísósu með tvenns konar salati

4 kjúklingabringur

1 dós af lífrænni jógúrt

5 msk. af karrí-blautmauki eða 5 tsk. af karrídufti

safi úr ½ sítrónu

salt og pipar eftir smekk



Jógúrtinu, karrí-blautmaukinu og safanum úr sítrónunni er blandað saman og saltað og piprað eftir smekk. Þessu er næst hellt yfir kjúklinginn og látið liggja í 4-6 tíma, við það mýkist kjúklingurinn og verður safaríkari.

Kjúklingurinn steiktur á pönnu í um 2 mínútur á hvorri hlið og því næst settur inn í ofn á 110° C í 30 mínútur eða 160° C í 18 mínútur. Betra er að elda hann á lægri hita því við það missir hann minni safa. Borið fram með hrísgrjónum.

Agúrkusalat

1 stk. agúrka skorin fínt niður

safi úr ½ lime

2 cm bútur af smátt skornu engiferi

graskersfræ eftir smekk

1 stk. rautt chili, smátt skorið

1 dl appelsínusafi

smá salt

Öllu blandað vel saman og látið standa í tvo tíma áður en borið er fram.

Gulrótarsalatið hennar ömmu

5 meðalstórar gulrætur rifnar niður

100 g rúsínur

safi úr ½ sítrónu

15 mintulauf

1 dl eplasafi

Öllu blandað vel saman og látið standa í tvo tíma áður en borið er fram.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.