Lífið

Dóri DNA leikur Mario í leit að týndu prinsessunni

Dóri DNA fer með hlutverk Marios í söngleik sem byggður er á tölvuleiknum Super Mario Bros.
Dóri DNA fer með hlutverk Marios í söngleik sem byggður er á tölvuleiknum Super Mario Bros.
„Singalong“-sýningin Mario Bros verður sett upp um miðjan ágúst af danshópnum Dans á rósum. Hér er um að ræða sýningu þar sem gestir eru hitaðir upp fyrir sýningu til að taka þátt í völdum atriðum.

„Þetta er mesta geðveiki í heiminum. Ég er að leika, syngja og dansa og ég hef aldrei gert neitt af þessu áður. Sem betur fer er ég með mjög liprar hreyfingar, tæra söngrödd og þá er ég að tala um að ég næ hinum hreina tóni. Svo er ég náttúrulega svaðalegur leikari,“ segir Halldór Halldórsson, betur þekkur sem Dóri DNA.

Dóri leikur aðalhlutverkið í sýningu listhópsins Dans á rósum sem setur upp sýninguna Mario Bros í ágúst í leikstjórn Írisar Stefaníu Skúladóttur. Mario Bros, sem byggt er á tölvuleiknum Super Mario Bros, er svokallað „singalong“-gamanleikhús og verður sýnt á Norðurpólnum á sviðslistahátíðinni artFart 2010 um miðjan ágúst.

Verkið hefst þegar Mario vaknar og uppgötvar að búið er að ræna prinsessunni hans enn og aftur. Hann biður bróður sinn Luigi um aðstoð við að finna prinsessuna og tjá þeir bræður baráttu sína með dansi og söng. Hugmyndasmíð eiga Íris Stefanía Skúladóttir, Búi Bjarmar Aðalsteinsson og Rósa Rún Aðalsteinsdóttir, en hún sér einnig um að semja dansana. Auk Dóra eru þátttakendur í sýningunni Saga Garðarsdóttir, Díana Rut Kristinsdóttir, Axel Diego, Sindri Steinn Diego, Jóakim Meyvant Kvaran, Arndís Benediktsdóttir og Særós Mist Hrannardóttir. Þess má geta að hér er um að ræða sirkusþjálfað fólk og er Sindri Diego núverandi Íslandsmeistari í fimleikum.

„Ég leikstýrði verki í Norðurpólnum í vor og ég þekki Írisi síðan í MH. Hún hringdi í mig og spurði hvort ég vildi taka þátt í öðruvísi dansleikhúsi. Það vildi svo skemmtilega til að ég var að flytja til Þýskalands í haust og ætlaði í raun að slaka á í sumar þannig að það var tilvalið að koma þarna inn,“ segir Dóri.

Formið á sýningunni er nýtt að því leytinu til að áhorfendur verða hitaðir upp fyrir sýningu og verða við öllu búnir þegar haldið er inn í salinn þar sem fjörið tekur við. Tónlist verksins er frumsamin að hluta en einnig er hún byggð á tónlistinni úr tölvuleiknum sjálfum. „Tónlistin er melódísk en notast er við þessi Mario Bros-hljóð úr tölvuleiknum. Halldór [Eldjárn] er slíkur meistari drengurinn og ég sem svo einn eða tvo texta með. Þetta kemur ofsalega vel út,“ segir Dóri.

Á dagskrá eru einungis þrjár sýningar, 12., 13. og 15. ágúst en Dóri hefur fulla trú á því að meira verði úr sýningunni. „Þetta verða þessar þrjár sýningar nema þetta verði ógeðslega vinsælt þá sýnum við þetta áfram. Ég held þetta verði Broadwayklassík,“ segir Dóri að lokum.

linda@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.