Handbolti

Ólafur: Var búinn að gleyma að ég hefði gert eitthvað í maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson með bikarinn í kvöld.
Ólafur Stefánsson með bikarinn í kvöld. Mynd/Vilhelm

Ólafur Stefánsson var kosinn Íþróttamaður ársins í fjórða sinn í kvöld og bauð að venju upp á athyglisvert og skemmtilegt viðtal við sjónvarpsmennina Hjört Júlíus Hjartarson og Adolf Inga Erlingsson.

„Ég var nokkuð viss síðast að ég myndi fá þetta og verð að viðurkenna það. Ég bjóst ekki við þessu núna og fór fyrst að kveikja á því fyrir nokkrum dögum þegar fólk fór að tala um þetta," sagði Ólafur Stefánsson í sjónvarpsviðtali eftir að hann var kosinn Íþróttamaður ársins.

„Ég er búinn að vera rokkandi þarna í Þýskalandi og var búinn að gleyma því að ég hafi gert eitthvað í maí. Þetta er gott en kannski ekki gott að því leyti að ég hefði viljað sjá einhvern fyrir ofan mig því það hefði verið betra fyrir Ísland ef einhver hefði verið betri," sagði Ólafur af mikill hógværð.

Ólafur sagði vera skipulagður en skipulagningin færi samt ekki fram í einhverjum exel-skjölum.

„Ég er í rauninni forrit sjálfur. Líkaminn minn er mitt fyrirtæki og hann gengur alltaf fyrir. Ég er hjátrúarfullur og trúi því að litlir hlutir geti vafið upp á sig og orðið að einhverju góðu eða slæmu," sagði Ólafur meðal annars í þessu viðtali.

„Handboltinn er minn litli heimur. Ég er ekki það vitlaus að segja hvernig á að reka banka eða eitthvað svoleiðis. Ég þekki mín takmörk og það hjálpar mér," sagði Ólafur.

Aðspurður um hógværðina talaði Ólafur um að hann væri mjög stoltur inn í sér þó svo að hann væri ekki að spreða því út um allt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×