Innlent

Mývetningar fagna metanóli en Alcoa gefst ekki upp

Oddviti Mývetninga fagnar hugmyndum um metanólverksmiðju við Kröflu. Alcoa heldur sínu striki og reiknar með að halda áfram viðræðum við Landsvirkjun eftir áramót um álver við Húsavík.

Landsvirkjun og íslensk-bandaríska fyrirtækið Carbon Recycling hafa undirritað viljayfirýsingu um að undirbúa eldsneytisverksmiðju við Kröfluvirkjun, sem myndi vinna metanól úr koltvísýringi frá borholum.

Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps, segir verkefnið hafa verið kynnt sveitarstjórn rétt fyrir jól. Fólki finnist þetta spennandi hugmyndir og vel þess virði að skoða. Mývetningar horfi hýru auga til allrar atvinnuuppbyggingar enda hafi íbúum fækkað verulega. Dagbjört segir að þegar flest var hafi 580 manns búið í sveitinni en nú séu íbúarnir innan við 400. Með lokun Kísiliðjunnar hafi 40 störf horfið og ekkert komið í staðinn.

Metanólverksmiðjan gæti hins vegar ýtt út af borðinu áformum um álver á Bakka við Húsavík, þar sem takmörkuð orka er til skiptanna. Viljayfirlýsingin við Carbon Recycling er kynnt aðeins mánuði eftir að sameiginlegu umhverfismati Alcoa, Landsvirkjunar og Landsnets lauk fyrir álver, virkjanir og háspennulínur.

Erna Indriðadóttir, talsmaður Alcoa á Íslandi, segir að á þessu stigi hafi fyrirtækið ekkert um þetta mál að segja en reiknar með að viðræður verði milli Alcoa og Landsvirkjunar fljótlega á nýju ári. Hún segir Alcoa þegar hafa lagt yfir einn milljarð króna í undirbúning álvers á Bakka.

Viljayfirlýsing um álverið var fyrst gerð fyrir fimm árum en núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna synjaði Alcoa um framlengingu hennar fyrir rúmu ári í þeim tilgangi að skoða aðrar hugmyndir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×