Körfubolti

Guðjón: Tek kannski Mourinho á þetta ef við vinnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Daníel

Guðjón Skúlason segir að allir hans leikmenn séu klárir fyrir leikinn mikilvæga gegn Snæfelli í kvöld.

Keflavík og Snæfell eigast við í oddaleik um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta í kvöld en Guðjón er þjálfari fyrrnefnda liðsins.

„Allir leikmenn eru tilbúnir og það er gríðarleg stemning í bæjarfélaginu fyrir leikinn í kvöld," sagði Guðjón en leikurinn fer fram í Keflavík. „Ég á von á því að það verði stappfullt hús og að það muni fyllast nokkru áður en leikurinn hefst. Það væri gaman ef það væri hægt að slá áhorfendamet í kvöld."

Hann sagði að allir leikmenn væru heilir og klárir í slaginn í kvöld. „Menn geta vælt eftir leikinn en nú eru bara 40 mínútur eftir af tímabilinu og menn klára það auðvitað," sagði hann í léttum dúr.

Guðjón segir mikilvægt að hans menn fái að stjórna hraðanum í leiknum en að það sé einnig algjört lykilatriði að frákasta vel gegn liði eins og Snæfelli.

„Það er grundvallaratriði að vera á pari við þá í fráköstunum. En það fer líka allt eftir því hvernig menn hitta og þá verður það varnarleikurinn sem sker úr."

Leikmenn börðust til blóðs í síðasta leik en alls þurfti að hlúa að þremur leikmönnum í leik liðanna í Stykkishólmi á mánudaginn. „Ég hef nú skoðað þessi atvik aftur á myndbandi og mér fannst þetta allt vera eitthvað sem gerðist í hita leiksins og er bara hluti af þessu. Stundum gerist svona lagað og stundum ekki."

Og hann þorir ekki að spá um hvort að leikurinn í kvöld verði jafn og spennandi, ólíkt flestum öðrum leikjum í rimmu liðanna til þessa. „Maður veit aldrei. En ég hef þó góða tilfinningu fyrir leiknum og þetta er jú það sem menn hafa unnið að allt tímabilið. Í kvöld uppskera leikmenn eftir allt erfiðið."

Spurður hvort að hann muni taka sér Jose Mourinho, stjóra Inter á Ítalíu, til fyrirmyndar í fagnaðarlátunum fari svo að Keflavík verði Íslandsmeistari í kvöld segir hann að svo gæti vel farið.

„Það er spurning hvort maður taki Mourinho á þetta. Það væri þá allavega tilefnið til þess í kvöld."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×