Bíó og sjónvarp

Nýr dagskrárstjóri tjáir sig ekki um Spaugstofuna

Erna Kettler er nýr dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins. Hún segir allt velta á því hversu miklir fjármunir séu fyrir hendi.
Erna Kettler er nýr dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins. Hún segir allt velta á því hversu miklir fjármunir séu fyrir hendi.

„Mér líst vel á starfið og ætla að taka mér tíma fram yfir helgi til að átta mig aðeins hlutunum,“ segir Erna Kettler, nýráðinn dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins. Erna verður yfir sameinaðri deild innlenda og erlenda sjónvarpsefnisins hjá RÚV en hún var áður á erlendu deildinni.

Þá var hún einnig dagskrárstjóri erlendu deildarinnar á Stöð 2 en Erna sleit barnsskónum í dagskrárdeild Stöðvar 2 og hefur því víðtæka reynslu í bæði erlendum og innlendum dagskrárdeildum.

Töluverður styr hefur staðið um Ríkissjónvarpið, ekki síst meðal íslenskra kvikmyndagerðarmanna eftir ummæli útvarpsstjórans Páls Magnússonar um að RÚV hygðist ekki fjárfesta í innlendu efni. Erna segist ekki vera í aðstöðu til þess að tjá sig um það mál, hún sé ekki einu sinni komin með lyklavöldin.

„Við erum að sjálfsögðu öll af vilja gerð,“ segir Erna, sem var heldur ekki tilbúin til að tjá sig um framtíð Spaugstofunnar sem hefur legið í lausu lofti.

Þegar Erna er spurð hvort áhorfendur eigi von á byltingu á dagskrá RÚV segist hún vissulega hafa myndað sér skoðun á því hvernig hlutirnir eigi að vera. Það séu hins vegar nýir tímar og fólk verði að velta hverri einustu krónu fyrir sér nokkrum sinnum.

„Auðvitað viljum við vera með meira af íslensku efni, við höfum verið með mikið af heimildarmyndum en ekki eins mikið af leiknu efni og við höfum viljað,“ segir Erna. „En þetta snýst auðvitað allt um það hverju við höfum efni á.“ - fgg

 

 

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×