Handbolti

Stella Sigurðardóttir: Við áttum allar stjörnuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stella Sigurðardóttir átti mjög góðan leik með Fram í kvöld.
Stella Sigurðardóttir átti mjög góðan leik með Fram í kvöld. Mynd/Vilhelm
Stella Sigurðardóttir átti mjög góðan leik með Fram í kvöld þegar liðið vann sannfærandi sigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar á þeirra eigin heimavelli. Stella skoraði 10 mörk og átti 5 stoðsendingar í leiknum og tók mikið af skarið í sóknarleiknum.

„Þetta var glæsilegur sigur og loksins sýndum við okkar rétta andlit. Það voru allar að standa sig vel. Það var engin léleg því við áttum allar sem ein stjörnuleik," sagði Stella Sigurðardóttir eftir leikinn.

„Við spiluðum lélega vörn í fyrri hálfleik því við áttum alveg að rúlla yfir þær þá. Það var ekkert mál að skora en það var bara varnarleikurinn sem var að klikka. Við lokuðum vörninni síðan í byrjun seinni hálfleiks," sagði Stella en Fram komst í 22-16 í upphafi seinni hálfleiks með því að skora 7 af fyrstu níu mörkum hans.

„Við urðum smá kærulausar í lokin og þær náðu að saxa aðeins á forskotið en annars var þetta frábær sigur," sagði Stella en Framliðið var mest með sjö marka forskot.

„Það er gaman að vinna þær sannfærandi. Við ætluðum að koma og sýna okkar rétta andlit. Ég veit ekki hvað þetta er búið að vera hjá okkur á móti Stjörnunni síðustu ár. Við erum búnar að vera eitthvað hræddar við þær," sagði Stella og bætti við:

„Við unnum þær í deildarbikarnum um daginn og vitum að við getum miklu betur en við höfum verið að sýna á móti Stjörnunni. Við komum núna með gott sjálfstraust inn í leikinn því við vitum að við erum með betra lið," sagði Stella og hún sagði að þetta hafi verið mikilvægur sigur á eiðinni í efsta sætið í deildinni.

„Það var mjög mikilvægt að byrja nýja árið vel því það eru þrír toppleikir hjá okkur á næstu tíu dögum. Við mætum HK, Val og Haukum. Við ætlum að reyna að klára þessa toppleiki og koma okkur í fyrsta sætið," sagði Stella að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×