Ragna Ingólfsdóttir er komin í átta manna úrslit á Kýpur International eftir sigra á tékkneskri og danskri stelpu í dag. Helgi Jóhannesson komst í aðra umferð þar sem hann féll úr leik eftir hörkuviðureign.
Ragna sigraði fyrsta einliðaleik sinn á móti Marcela Nesvedova frá Tékklandi en Íslandsmeistarinn burstaði leikinn 21-2 og 21-8.
Í annarri umferð spilaði Ragna við Christina Andersen frá Danmörku en Ragna vann þann leik 21-13 og 23-21.
Í þriðju umferð sem spiluð verður í fyrramálið mætir Ragna Claudia Mayer frá Austurríki. Ragna er röðuð númer fjögur inn í mótið en Mayer númer sjö.
Helgi Jóhannesson, sem fór í aðra umferð mótsins er nú úr leik eftir hörkuspennandi viðureign í einliðaleik við Gert Hansen frá Danmörku. Hansen sigraði Helga eftir oddalotu 21-16, 17-21 og 21-16.
