Lífið

Vill láta stöðva myndir af sér á síðunni Flick My Life

Freyr Bjarnason skrifar
Ásgeir Kolbeinsson er orðinn þreyttur á myndum af sér á síðunni FlickMyLife.com. Síðan er ein vinsælasta og umtalaðasta afþreyingarsíða landsins. fréttablaðið/anton
Ásgeir Kolbeinsson er orðinn þreyttur á myndum af sér á síðunni FlickMyLife.com. Síðan er ein vinsælasta og umtalaðasta afþreyingarsíða landsins. fréttablaðið/anton

„Þetta er orðið óþægilega mikið áreiti," viðurkennir sjónvarpsmaðurinn Ásgeir Kolbeinsson, sem hefur verið áberandi á síðunni Flick My Life síðan hún fór í loftið á síðasta ári. Myndir af honum við hin ýmsu tækifæri, gamlar sem nýjar, hafa verið sendar þangað inn og þær síðan birtar undir nafninu Kolb in the Wild eða Kolb in the Child.

Enn lengra var seilst í gær þegar mynd birtist af honum á svölunum heima hjá sér en sjálfur hafði Ásgeir ekki séð hana þegar Fréttablaðið spurði hann út í málið.

„Auðvitað hefur maður húmor fyrir því þegar maður sér fyrst nafnið Kolb in the Wild. Því einu og sér er svo sem alveg hægt að brosa yfir," segir Ásgeir.

„En síðan er þetta búið að vinda mikið upp á sig. Þetta er löngu hætt að snúast um að fólk sendir inn myndir sem einhver hefur fundið hér og þar. Þetta hefur snúist upp í að fólk er farið að reyna að ná nýjum myndum," segir hann og finnst „grínið" hafa gengið full langt.

„Maður er hvergi öruggur. Einhverjar myndir eru af mér á veitingastöðum með fjölskyldunni. Það er frekar pirrandi að geta ekki haft sitt einkalíf í friði."

Líður þér þá kannski eins og Hollywood-stjörnu?

„Eins fáránlega og það hljómar þá er þetta eflaust nákvæmlega sama upplifun. Maður er alltaf var um sig."

Ásgeir er að vonum þreyttur á þessari athygli en lítur þó á björtu hliðarnar.

„Það er ekki eins og þetta sé á neinum neikvæðum nótum. Fólk hefur bara gaman af þessu og það er eðlilegt þegar eitthvað fær svona athygli að fleiri vilja vera þátttakendur í því."

Honum finnst brandarinn samt vera búinn og ætlar að hafa samband við eigendur Flick My Life og biðja þá um að hætta með Kolb-konseptið. Spurður hvort hann íhugi að leita réttar síns enn frekar segir Ásgeir:

„Ég er ekki þekktur fyrir að búa til einhver leiðindi en ég vona að þeir hafi skilning á því að þetta sé orðið gott. Ef þeir sjá ekki að sér að stoppa þetta þegar maður biður þá í vinsemd um það þá hef ég í rauninni engu að tapa."

Heimasíðuna sem um ræðir má nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×