Innlent

Ingibjörg Sólrún á meðal fundarmanna

Ingibjörg Sólrún var meðal fundarmanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Hún tók ekki til máls á fundinum. Ingibjörg var varaformaður Samfylkingarinnar 2003-2005 og formaður 2005-2009.
Ingibjörg Sólrún var meðal fundarmanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Hún tók ekki til máls á fundinum. Ingibjörg var varaformaður Samfylkingarinnar 2003-2005 og formaður 2005-2009.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, var meðal fundargesta á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fer fram á Hótel Loftleiðum í dag. Umfjöllunarefni fundarins eru tillögur umbótanefndar flokksins en nefndin var skipuð í aprílmánuði til að fara yfir starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins. Ingibjörg tók ekki til máls en hún hefur nú yfirgefið fundinn.

Fyrr á árinu hélt Ingibjörg tilfinningaþrungna ræðu á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar. Þá sagðist hún hafa brugðist sjálfri sér og kjósendum flokksins. Undir lok ræðunnar táraðist Ingibjörg þegar hún kvaddi flokksmenn og sagðist ætla að stíga léttstíga á brott inn í kalt og fallegt vorið. „Þannig að þið getið haldið vinnunni og uppgjörinu áfram ótrufluð af minni nærveru. Og þá er ekkert eftir annað en að þakka fyrir sig. Takk."



Veikleikar afhjúpaðir



Umbótanefndin hefur nú lagt fram skýrslu sína. Nefndin kemst að þeirri meginniðurstöðu að bankahrunið og ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar afhjúpi veikleika í starfi flokksins sem mikilvægt sé að takast á við eigi flokkurinn áfram að gegna leiðandi hlutverki í íslenskum stjórnmálum.

Tillögum umbótanefndarinnar er skipt í sex kafla og er hægt að skoða þær hér.

Ánægja með skýrslu umbótanefndarinnar

Fjölmargir flokksmenn hafa stigið í pontu og tekið þátt í umræðum um niðurstöður nefndarinnar og hafa flestir lýst yfir mikilli ánægju með plaggið. Einhverjir fundarmenn hafa bent á að andstæðingar Samfylkingarinnar muni nota þá sjálfsgagnrýni sem fram komi í skýrslu umbótanefndarinnar til að koma höggi á flokkinn. Enn aðrir hafa bent á að það skipti ekki máli og að tilgangur með stofnun nefndarinnar hafi verið að auðvelda Samfylkingarinnar að taka á innri málum og styrkja þannig stefnumótun flokksins til framtíðar.

Þá hefur verið bent á að tillögur umbótanefndarinnar um að banna opin prófkjör og allar auglýsingar stangist á við núverandi lög flokksins sem verði ekki breytt nema á landsfundi. Að öllu óbreyttu verður næsti landsfundur Samfylkingarinnar haldinn haustið 2011.


Tengdar fréttir

Stjórnarþátttakan afhjúpar veikleika flokksins

Umbótanefnd Samfylkingarinnar kemst að þeirri megin niðurstöðu í skýrslu sem lögð er fyrir flokksstjórn í dag að bankahrunið og ríkisstjórnarþátttaka flokksins afhjúpi veikleika í flokksstarfinu. Varaformaður flokksins segir að ábyrgðin á bankahruninu megi ekki einskorðast við þá einstaklinga sem stóðu í eldlínunni á tíma hrunsins.

Samfylkingin biðji þjóðina afsökunar

Samfylkingin biður þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún beri ábyrgð á í aðdraganda hrunsins. Jafnfram heitir flokkurinn því að hlusta með opnum huga á gagnrýni og takast á við umbætur á skipulagi, starfsháttum og stefnu flokksins til að koma í veg fyrir að sambærileg mistök endurtaki sig. Þetta kemur fram í ályktun sem liggur fyrir flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fram fer á hótel Loftleiðum í dag og verður væntanlega samþykkt síðdegis.

Stjórnmálaflokkum verði bannað að auglýsa í sjónvarpi

Samfylkingin hefur brennt sig illa á því að sækjast eftir og þiggja fé af einstökum fyrirtækjum og fjársterkum hagsmunaaðilum. Það er ljóst að flokkurinn hefur gert afdrifarík og alvarleg mistök með því að láta viðgangast að frambjóðendur öfluðu fjár frá fyrirtækjum, og jafnvel hvetja til þess. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar og lögð var fyrir flokksstjórn Samfylkingarinnar fyrr í dag. Nefndin leggur til að flokkurinn beiti sér fyrir því að sjónvarps- og útvarpsauglýsingar stjórnmálaflokka verði bannaðar í aðdraganda kosninga.

Ráðherrar sagðir í engum tengslum við flokkinn

„Starf ráðherra er í litlum eða engum tengslum við flokkinn. Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa engar skyldur um að standa skil á embættisfærslum sínum gagnvart eigin félögum og flokksmenn hafa engar formlegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðherra flokksins,“ segir í skýrslu umbótanefndar Samfylkingarinnar sem lögð var fyrir flokksstjórn flokksins í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×