Mark Webber frá Ástralíu var hraðskreiðastur allra ökumanna á síðustu æfingu ökumanna fyrir tímatökuna á Sepang brautinni í Malasíu í nótt. Hann sló við Lewis Hamilton á McLaren á lokasprettinum og varð aðeins 0.017 sekúndum á undan. Sebastian Vettel varð þriðji á samskonar Red Bull bíl og Webber.
Fernando Alonso á Ferrari varð fjórði, 0.289 á eftir og Michael Schumacher á Mercedes var 0.460 á eftir fyrsta bíl, en félagi hans Nico Rosberg 0.548, en Felipe Massa á Ferrari 0.632.
Það eru því horfur á spennandi tímatöku sem er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 7.45.