Semaj Inge sýndi mátt sinn á körfuboltavellinum á Ásvöllum í kvöld þegar hann fór mikinn í 52 stiga sigri Hauka á ÍA, 131-79 í 1. deild karla. Semaj skoraði 46 stig á 28 mínútum í leiknum en þetta var fyrsti leikur hans með Hafnarfjarðarliðinu.
Haukaliðið var búið að tapa þremur síðustu leikjum sínum í deildinni á móti Val, KFÍ og Hetti en það var ljóst frá byrjun þessa leiks að fjórða tapið var ekki á dagskránni í kvöld.
Semaj hitti úr 17 af 28 skotum sínum í leiknum þar af 3 af 6 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna. Inge hitti aðeins úr 4 af 28 síðustu skotum sínum í KR-búningnum og var rekinn eftir Njarðvíkurleikinn á mánudaginn.
Haukamaðurinn Sævar Ingi Haraldsson fann sig vel við hliðina á Semaj í bakverðinum því Sævar gældi við þrennuna með 12 stigum, 8 fráköstum og 9 stoðsendingar.