Viðskipti innlent

Afglöp og vítaverð vanræksla endurskoðenda Glitnis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Slitastjórn Glitnis stefnir endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers fyrir afglöp í trúnaðarstarfi og vítaverða vanrækslu. Endurskoðendurnir eru sakaðir um að hafa gróflega rangfært áhættu Glitnis og stuðlað að sviksamlegri fjáröflun bankans í New York.

Stefna slitastjórnar Glitnis beinir sjónum að endurskoðendum bankanna og ábyrgð þeirra á bankahruninu. PricewaterhouseCoopers voru endurskoðendur Glitnis banka en í tilkynningu slitastjórnar segir að það hafi verið þeir sem gerðu úttektir og gáfu yfirlýsingar sem fjárfestar treystu á þegar skuldabréf Glitnis voru boðin út í New York í september árið 2007.

Slitastjórn fullyrðir nú í stefnu sinni að Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir sem stefnt er í málinu, hefðu aldrei komið fram ráðagerðum sínum án hlutdeildar PricewaterhouseCoopers. Endurskoðendurnir hafi vitað um óeðlilega áhættu Glitnis gagnvart tengdum aðilum, þeir hafið farið yfir og kvittað upp á uppgjör Glitnis, þar sem sú áhætta hafi verið gróflega rangfærð, og þannig hafi PricewaterhouseCoopers stuðlað að sviksamlegri fjáröflun Glitnis í New York.

Endurskoðunarfyrirtækinu er því stefnt fyrir afglöp í trúnaðarstarfi og vítaverða vanrækslu. Í stefnunni er sérstaklega nefndur til sögunnar Sigurður B. Arnþórsson sem sá endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers sem helst bar ábyrgð á vinnu fyrirtæksins fyrir Glitni.

Sigurður hafi meðal annars staðið að undirbúningi skuldabréfaútboðsins og hafi skrifað undir skýrslu PricewaterhouseCoopers til Fjármálaeftirlitsins um útboðið og þá skýrslu sem fylgdi útboðinu í New York. Sigurður B. Arnþórsson var einn af eigendum PricewaterhouseCoopers á Íslandi og sat í stjórn fyrirtækisins en starfar nú sem framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×