Háskólar efli íslenska tungu Steinunn Stefánsdóttir skrifar 16. nóvember 2010 06:00 Dagur íslenskrar tungu er í dag haldinn hátíðlegur í fimmtánda sinn en fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar hefur verið helgaður íslenskri tungu frá árinu 1996. Vel hefur tekist til að gera þennan dag að hátíðisdegi. Það er ekki síst í skólum og leikskólum þar sem nemendur og kennarar gera sér dagamun með hátíðarhöldum sem eru í senn skemmtileg og til þess fallin að örva eftirtekt og tilfinningu fyrir móðurmálinu. Íslensk málnefnd hefur sent frá sér árlega ályktun sína um stöðu íslenskrar tungu. Að þessu sinni beinist ályktunin að málnotkun í íslensku háskólasamfélagi. Hvatt er til þess að íslenskan eflist þar og dafni en verði ekki hornreka eins og teikn séu um að hún verði. Íslensk málnefnd leggur til að íslenskan verði opinbert mál háskóla á Íslandi og að meginreglan verði sú að íslenska sé vinnumál jafnt í kennslu sem rannsóknum og stjórnsýslu háskólanna. Þá er lagt til að kennsla í grunnnámi verði að öllu jöfnu á íslensku. Áhyggjur málnefndar af stöðu íslenskunnar í háskólum eru ekki úr lausu lofti gripnar. Rannsóknir sýna að um níutíu prósent námsefnis á háskólastigi hér á landi sé á ensku. Enn meira áhyggjuefni er þó hversu mjög hefur færst í vöxt að kennsla og verkefnavinna fari fram á ensku. Þetta á ekki bara við um framhaldsnám heldur einnig grunnnám í háskólum. Þannig voru rúmlega 11 af hundraði námskeiða í Háskóla Íslands á síðasta skólaári kennd á ensku, alls 250 námskeið. Af þeim var nærri helmingur í grunnnámi. Í grunnnámi í háskóla feta nemendur fyrstu skrefin í fagi sínu. Þar tileinka þeir sér hugtök og fræðilegan orðaforða. Þeir sem á annað borð fara til starfa í grein sinni munu nota þennan orðaforða í starfi og mun meiri líkur eru á því en minni að starfsvettvangurinn verði einmitt á Íslandi, í íslensku málumhverfi. Ef ekki þá er alkunna að besta stoðin undir nám í færni í erlendu tungumáli er einmitt traust og haldgóð þekking á móðurmálinu. Það er því allt að vinna að í grunnnámi í háskóla byggist upp haldgóður orðaforði í fræðigrein á móðurmálinu, auk þess sem þjálfun í rökræðum um greinina á móðurmáli er sjálfsagður liður í náminu. Það hefur lengi verið viðtekin hugmynd í íslensku samfélagi að Íslendingar væru svo góðir í ensku. Hvort sem sú hugmynd er delluhugmynd eða ekki þá er ljóst að móðurmálið er það tungumál sem hverjum er tamast. Á því getur hver maður tjáð það sem hann vill tjá. Á erlendu tungumáli setur kunnáttan í málinu hins vegar rammann um tjáninguna í stað hugsunarinnar. Þannig halda ekki þau rök fyrir enskuvæðingu háskólasamfélagsins að mikilvægt sé háskólanemum að byggja upp orðaforða í fræðigrein sinni í grunnnáminu. Það má ekki gerast að íslenskan missi umdæmi í íslensku háskólasamfélagi. Hér verður að snúa vörn í sókn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson Skoðun
Dagur íslenskrar tungu er í dag haldinn hátíðlegur í fimmtánda sinn en fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar hefur verið helgaður íslenskri tungu frá árinu 1996. Vel hefur tekist til að gera þennan dag að hátíðisdegi. Það er ekki síst í skólum og leikskólum þar sem nemendur og kennarar gera sér dagamun með hátíðarhöldum sem eru í senn skemmtileg og til þess fallin að örva eftirtekt og tilfinningu fyrir móðurmálinu. Íslensk málnefnd hefur sent frá sér árlega ályktun sína um stöðu íslenskrar tungu. Að þessu sinni beinist ályktunin að málnotkun í íslensku háskólasamfélagi. Hvatt er til þess að íslenskan eflist þar og dafni en verði ekki hornreka eins og teikn séu um að hún verði. Íslensk málnefnd leggur til að íslenskan verði opinbert mál háskóla á Íslandi og að meginreglan verði sú að íslenska sé vinnumál jafnt í kennslu sem rannsóknum og stjórnsýslu háskólanna. Þá er lagt til að kennsla í grunnnámi verði að öllu jöfnu á íslensku. Áhyggjur málnefndar af stöðu íslenskunnar í háskólum eru ekki úr lausu lofti gripnar. Rannsóknir sýna að um níutíu prósent námsefnis á háskólastigi hér á landi sé á ensku. Enn meira áhyggjuefni er þó hversu mjög hefur færst í vöxt að kennsla og verkefnavinna fari fram á ensku. Þetta á ekki bara við um framhaldsnám heldur einnig grunnnám í háskólum. Þannig voru rúmlega 11 af hundraði námskeiða í Háskóla Íslands á síðasta skólaári kennd á ensku, alls 250 námskeið. Af þeim var nærri helmingur í grunnnámi. Í grunnnámi í háskóla feta nemendur fyrstu skrefin í fagi sínu. Þar tileinka þeir sér hugtök og fræðilegan orðaforða. Þeir sem á annað borð fara til starfa í grein sinni munu nota þennan orðaforða í starfi og mun meiri líkur eru á því en minni að starfsvettvangurinn verði einmitt á Íslandi, í íslensku málumhverfi. Ef ekki þá er alkunna að besta stoðin undir nám í færni í erlendu tungumáli er einmitt traust og haldgóð þekking á móðurmálinu. Það er því allt að vinna að í grunnnámi í háskóla byggist upp haldgóður orðaforði í fræðigrein á móðurmálinu, auk þess sem þjálfun í rökræðum um greinina á móðurmáli er sjálfsagður liður í náminu. Það hefur lengi verið viðtekin hugmynd í íslensku samfélagi að Íslendingar væru svo góðir í ensku. Hvort sem sú hugmynd er delluhugmynd eða ekki þá er ljóst að móðurmálið er það tungumál sem hverjum er tamast. Á því getur hver maður tjáð það sem hann vill tjá. Á erlendu tungumáli setur kunnáttan í málinu hins vegar rammann um tjáninguna í stað hugsunarinnar. Þannig halda ekki þau rök fyrir enskuvæðingu háskólasamfélagsins að mikilvægt sé háskólanemum að byggja upp orðaforða í fræðigrein sinni í grunnnáminu. Það má ekki gerast að íslenskan missi umdæmi í íslensku háskólasamfélagi. Hér verður að snúa vörn í sókn.
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson Skoðun
Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt Skoðun