Handbolti

Gunnar. Grátlegt tap

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ásgeir Jónsson og félagar lögðu sig alla fram í kvöld.
Ásgeir Jónsson og félagar lögðu sig alla fram í kvöld.

„Þetta var bara grátlegt hérna í lokin,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, virkilega svekktur eftir leikinn í kvöld.

„Mér fannst við líklegir til þess að vinna leikinn um miðjan seinni hálfleik þegar við  vorum komnir þremur mörkum yfir. Síðan kemur slæmur kafli hjá okkur og við náum ekki að skora í sjö mínútur. Það var hreinlega of dýrt fyrir okkur þegar upp var staðið.“

„Þetta var ekkert sérstakur handbolti hérna í kvöld en virkilega sterkur varnarleikur hjá báðum liðum. Ég er mjög ánægður með varnarleikinn hjá mínum strákum en sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiska og það er bara hlutur sem við verðum að vinna í,“ sagði Gunnar.

Stemmningin á Varmá í kvöld var frábær og áhorfendur voru virkilega með á nótunum.

,,Það er bara frábært að spila hérna fyrir framan þessa áhorfendur. Það var markmið hjá okkur að búa til algjöra gryfju hérna og það fer ekkert lið héðan út nema hafa virkilega fyrir hlutunum.“

„Núna verðum við bara að spýta í lófana eftir svona byrjun. Við vissum það fyrir að þetta yrðu mjög erfiðir leikir til að byrja með. Strákarnir í liðinu hafa kannski ekki mikla reynslu af því að vera í  lykilhlutverki í liði í efstu deild og það kannski varð okkur að falli í kvöld,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×