Körfubolti

Hörður Axel: Við spiluðum bara ekki körfubolta.

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Mynd/Daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson var með 11 stig og 7 stoðsendingar fyrir Keflavík í kvöld en það dugði þó skammt þegar liðið tapaði með 22 stigum í Hólminum í öðrum úrslitaleik Iceland Express deild. Hörður Axel var líka ekki sáttur í viðtali við Hörð Magnússon í útsendingu Stöð 2 Sport.

„Þetta var bara skelfing hjá okkur og við vorum bara alveg glataðir. Það er ekki hægt að hafa mörg orð um frammistöðuna hjá okkur en þeir eiga alltaf eftir að koma í Keflavík sama hvernig þessi leikur fór," sagði Hörður Axel.

„Þetta var ekkert vanmat. Við mættum ekki tilbúnir á meðan að þeir mættu brjálaðir og slógu okkur strax út af laginu. Við áttum aldrei möguleika á móti þeim í þessum leik en það verður öðruvísi í næsta leik," lofaði Hörður.

Hann var ekkert á því að Jeb Ivey hefði gert mikið í leiknum en Ivey lenti í Hólminum rétt fyrir leik og varð með 13 stig og 4 stoðsendingar í leiknum.

„Jeb Ivey var ekkert erfiðari en aðrir hjá þeim. Hann er svipaður spilari og Sean en við spiluðum bara ekki vörn á neinn í dag. Það skipti ekki máli hvort hann hét Jeb Ivey eða Jón. Við spiluðum bara ekki körfubolta," sagði Hörður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×