Sport

Serena og Zvonareva mætast í úrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams á möguleika á að vinna sinn fjórða meistaratitil á Wimbledon.
Serena Williams á möguleika á að vinna sinn fjórða meistaratitil á Wimbledon. Nordic Photos / Getty Images
Það verða Serena Williams frá Bandaríkjunum og Vera Zvonareva frá Rússlandi sem mætast í úrslitum einliðaleiks kvenna á Wimbledon-mótinu í tennis.

Serena er í efsta sæti heimslistans í tennis og hafði betur gegn Tékkanum Petra Kvitova í undanúrslitum í gær, 7-6 og 6-2.

Serena hefur enn ekki tapað setti á mótinu og verður að teljast afar sigurstrangleg í úrslitaleiknum á morgun. Hún hefur unnið tólf sinnum á stórmótum á ferlinum, þar af þrisvar á Wimbledon.

Þetta er í þriðja árið í röð sem hún kemst í úrslitaleikinn en hún fagnaði sigri á mótinu í fyrra.

Zvonareva er nú að keppa til úrslita á stórmóti í fyrsta sinn á ferlinum. Hún hafði betur gegn Tsvetana Pironkova frá Búlgaríu í sinni undanúrslitaviðureign í gær, 3-6, 6-3, 6-2.

Pironkova hafði slegið út systur Serenu, Venus Williams, í fjórðungsúrslitum.

Í dag fara fram undanúrslitin í einliðaleik karla og má búast við mikilli spennu í báðum viðureignum.

Tomas Berdych frá Tékklandi mætir Serbanum Novak Djokovic sem er í þriðja sæti heimslistans. Berdych gerði sér lítið fyrir og sló út efsta mann heimslistans, Roger Federer, í fjórðungsúrslitunum.

Í hinni viðureigninni mætast Bretinn Andy Murray og Rafael Nadal frá Spáni. Bretar binda miklar vonir við Murray en síðasti Bretinn sem komst í úrslit á Wimbledon var Bunny Austin árið 1938. Sá síðasti sem vann var Fred Perry tveimur árum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×