Innlent

Norskir sérfræðingar rannsaka salmonellusmit á Íslandi

Norskir sérfræðingar eru væntanlegir til landsins til að kanna óvenju háa tíðni salmonellusmita í kjúklingum hér á landi. Fram til ársins 2007 var sýkingin nær óþekkt í búum hér.

Enn og aftur leikur grunur á að salmonellusmit sé komið upp í kjúklingum. Að þessu sinni í kjúklingi frá Matfugli og ef svo reynist vera er þetta fimmtugasta smittilfellið í kjúklingum hér á landi, á árinu.

Það er þó ekki langt síðan Ísland skipaði sér í fremstu röð meðal þjóða heims hvað varðar öryggi í kjúklingaframleiðslu. Salmonella fannst til dæmis ekki í alifuglum á árunum 2004 til 2007 og árin þar á undan var salmonella undir einu prósenti. En hvað gerðist?

Yfirdýralæknir segir að grunur leiki á að mengað fóður hafi borist til landsins og það hafi komið skriðunni af stað, því þegar sýking er einu sinni komin inn á bú eða í sláturhús sé erfitt að koma í veg fyrir að smit berist í næsta fuglahóp, þrátt fyrir ítrustu kröfur um þrifnað og hreinlæti. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að salmonella sýking í mönnum hefur ekki aukist á árinu.

Helstu sjúkdómseinkenni salmonella-sýkingar eru magaverkur, niðurgangur, hiti, höfuðverkur, uppköst og ógleði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×