Innlent

Ríkisstjórnin finnur upp nýjan skatt

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru oddvitar ríkisstjórnarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru oddvitar ríkisstjórnarinnar.
Bönkum og lífeyrissjóðum verður ætlað með nýrri skattlagningu að fjármagna sérstakar vaxtaniðurgreiðslur, sem kveðið er á um í viljayfirlýsingu stjórnvalda um skuldavanda heimila.

Ný tegund tímabundinnar vaxtaniðurgreiðslu, sem verður óháð tekjum, er meðal þeirra úrræða sem boðuð var í yfirlýsingunni á föstudag, og er reiknað með að útgjöld vegna þessa verði allt að sex milljarðar króna á ári næstu tvö árin.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, vakti athygli á því á Alþingi í dag að útfærslan lægi ekki fyrir og spurði hvort kostnaðurinn myndi lenda á ríkinu.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagðu það alveg kvitt og klárt að svo væri ekki. Leita ætti leiða til að lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki fjármögnuðu þessi útgjöld. Það yrði gert í gegnum skattakerfið. Jóhanna tók þó fram að ef aðrar leiðir fyndust fyrir þau til að greiða þetta yrði það skoðað.

Sigmundur Davíð sagði þessa setningu lýsandi fyrir ríkisstjórnina; að leita ætti leiða til að gera eitt og annað. Þessa vaxtaniðurgreiðslu sagði hann það eina nýja í aðgerðapakkanum. Ekki hefði ennþá verið fundið út úr því hvernig ætti að gera þetta. Þó virtist ljóst af svörum forsætisráðherra að gera ætti þetta með skattlagningu.

„Enda nægt svigrúm þar til þess að finna upp nýja skatta," bætti hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×