Innlent

Pilti gert að fara frá fjölskyldu sinni

Fjölskyldan á Hávarsstöðum f.v. Julio Cesar Gutierrez, Lilja Grétarsdóttir og Julio Daniel Gutierrez í efri röð. Emiliano Elvar Gutierrez og Jórunn Narcisa Gutierrez í neðri röð
Fjölskyldan á Hávarsstöðum f.v. Julio Cesar Gutierrez, Lilja Grétarsdóttir og Julio Daniel Gutierrez í efri röð. Emiliano Elvar Gutierrez og Jórunn Narcisa Gutierrez í neðri röð
„Sonur minn þarf að yfirgefa landið fyrir áramót og við erum leið og hrygg vegna þess. Okkur finnst þetta ósanngjarnt." Þetta segir Julio Cesar Gutierrez, bóndi á Hávarsstöðum í Hvalfjarðarsveit, um þá ákvörðun Útlendingastofnunar að neita nítján ára syni hans um landvistarleyfi.

Sonur hans, Julio Daniel, var búsettur í heimalandi sínu Úrúgvæ en hefur dvalið hjá föður sínum og fjölskyldu hér í eitt og hálft ár. Julio Cesar fluttist hingað til lands þegar sonur hans var þriggja ára. Hann settist hér að, kvæntist og á nú fjölskyldu hér. Hann vinnur meðal annars við bústörf heima fyrir, tamningar og fjárrúning svo eitthvað sé nefnt. Sonur hans hefur hjálpað honum við bústörfin þann tíma sem hann hefur dvalið hér.

Julio Cesar segir þá feðgana hafa haft stopult samband áður en Daniel flutti til Íslands. Það sé því ómetanlegt fyrir fjölskylduna að fá að kynnast honum og mynda fjölskyldutengsl. Sonur hans hafi haft í hyggju að dvelja hér áfram, fá sér vinnu og jafnvel að fara í skóla. Af því geti nú ekki orðið.

Umsóknarferli Daniels hófst í ágúst á síðasta ári. Þá var sótt um dvalarleyfi fyrir barn íslensks ríkisborgara en þeirri umsókn var hafnað því móðir hans sem býr í Úrúgvæ var ein skráð með forræði yfir honum og samkvæmt reglunum verður það foreldri sem sækir um dvalarleyfið fyrir barnið að vera búsett á Íslandi og hafa forræði. Synjunin var kærð til dómsmálaráðuneytisins en ekki var talin heimild í lögum til að víkja frá ákvæðinu um forræði. Ráðuneytið benti á að hægt væri að sækja um leyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Nú í nóvember barst Daniel bréf frá Útlendingastofnun þar sem umsókn hans var hafnað og að hann skyldi „yfirgefa landið sem fyrst en eigi síðar en 30 dögum frá móttöku þessarar ákvörðunar". Honum er bent á að hann geti kært ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins.

Julio Cesar býst ekki við því að þessi úrskurður verði kærður. Hann segir að það hafi einu sinni verið reynt og er vondaufur um að það beri frekari árangur nú.

jss@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×