Innlent

Handtekinn fyrir káf og fyllerísraus

Maðurinn var handtekinn í Hveragerði.
Maðurinn var handtekinn í Hveragerði.

Ölvaður karlmaður gekk berserksgang á Hótel Örk í Hveragerði um helgina. Auk þess angraði hann gesti með káfi og rausi.

Maðurinn var handtekinn af lögreglunni á Selfossi og færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér vímuna. Við yfirheyrslu bar hann við minnisleysi og kannaðist ekki við sakarefnið.

Þá var talsverður erill hjá lögreglumönnum á Selfossi um helgina. Nokkur útköll voru vegna skarkala í íbúðarhúsum sem gengu svo langt að var öðrum íbúum til ama.

Lögreglumönnum tókst að lægja öldurnar og koma á skikki. Ýmis önnur útköll voru vegna ýmiss konar aðstoðar við bæjarbúa sem áttu í bráðum veikindum og margs konar vandræðum sem aðrir voru ekki til að leysa úr.

Skömmu eftir miðnætti síðastliðins fimmtudag var tilkynnt um að þjófavarnarkerfi hefði farið í gang í orlofshúsi í Heiðabyggð í Hrunamannahreppi.

Lögreglumenn fóru þegar á vettvang. Ljóst var eftir ummerkjum að þjófarnir hefðu nýlega verið á staðnum og þeir farið inn í nærliggjandi hús en þaðan var engu stolið.

Ekki sást til innbrotsþjófanna og þeir komust undan.

Úr húsinu var stolið flatskjá af Samsung gerð. Eigandi orlofshússins er stéttarfélagið Báran sem ítrekað hefur mátt þola innbrot og þjófnaði úr húsum sínum á þessu svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×