Innlent

Innbrot tíðari á tekjulágum svæðum

Nokkur fylgni er milli fjölda brota og efnahagslegrar og félagslegrar stöðu eftir svæðum samkvæmt afbrotaskýrslu lögreglunnar fyrir árið 2009.

Þannig er fjöldi innbrota almennt hærri á hverja 10.000 íbúa á þeim svæðum þar sem tekjur eru undir meðaltali á höfuðborgarsvæðinu og hlutfall þeirra sem fengu fjárhagslega aðstoð er sömuleiðis hærra en að meðaltali. Sama má segja um brot eins og nytjastuldi, eignaspjöll, ofbeldisbrot, kynferðisbrot og fíkniefnabrot.

Þegar þessi brot eru borin saman milli svæða að teknu tilliti til íbúafjölda, stendur miðborg Reykjavíkur upp úr hvað fjölda þeirra varðar. Taka þarf mið af því að mikinn hluta þessara brota má rekja til skemmtanalífs á afmörkuðu svæði í hjarta borgarinnar um helgar.

Þetta er sérstaklega áberandi þegar ofbeldisbrot eru skoðuð en 40 prósent þessara brota eiga sér stað í Miðborg. Friðsælast er hinsvegar á Álftanesi og Seltjarnarnesi, en á þessum svæðum eru brot jafnan fátíðust.

Árlega er lögð fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins spurningakönnun á reynslu þeirra af lögreglu, öryggi og afbrotum. Niðurstöður könnunarinnar birtast í skýrslunni.

Viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins til lögreglu er almennt gott, en á öllum svæðum er mikil ánægja með störf hennar. Þá þykir íbúum lögreglan almennt aðgengileg þó það sé nokkuð misjafnt milli svæða.

Um 60 prósent svarenda nefndu innbrot sem mesta vandamálið í sínu hverfi. Áfram fjölgar þeim sem sögðust einhvern tímann hafa óttast afbrot á árinu.

Óttinn var í meira en helmingi tilvika við innbrot. Á sama tíma telur yfirgnæfandi meirihluti sig örugga þegar þeir eru einir á ferli í sínu hverfi að næturlagi.


Tengdar fréttir

Auðgunarbrotum fjölgar

Árið 2009 var um margt viðburðarríkt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar litið er til þróunar afbrota samkvæmt afbrotaskýrslu lögreglunnar fyrir árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×