Körfubolti

Benedikt: Ég held að KR-liðið eigi meira inni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfara Íslandmeistara kvenna hjá KR.
Benedikt Guðmundsson, þjálfara Íslandmeistara kvenna hjá KR. Mynd/Stefán
KR og Snæfell leika í kvöld hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla í körfubolta. Vísir fékk Benedikt Guðmundsson, þjálfara Íslandmeistara kvenna hjá KR til þess að spá í leik kvöldsins sem hefst klukkan 19.15 í DHL-höllinni í Frostaskjóli og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

„Þetta verður fyrsti heimasigurinn," sagði Benedikt Guðmundsson. „Ég held að KR-liðið eigi meira inni. Það voru margir sem náðu sér ekki á strik í sigrinum í Hólminum en þeir náðu samt að klára þann leik. Á morgun (í dag) eigum við eftir að sjá þetta smella betur hjá KR og það eiga fleiri eftir að stíga upp," segir Benedikt.

„Ég spái því að við fáum 25-30 stig frá Brynjari, Tommy getur ekki spilað verr en hann gerði í Hólminum um daginn þannig að hann á eftir að hjálpa meira. Darri á eftir að leggja í púkkið og Fannar mun stíga upp líka. Þetta voru Lewis og Pavel í Hólminum en það eiga eftir að vera fleiri sem munu fara á kostum hjá KR í þessum oddaleik," segir Benedikt.

„Snæfell fékk kjörið tækifæri til að klára þetta einvígi þegar margir leikmenn KR voru ekki í sínum besta gír. Ég held að allt sem KR átti inni í síðasta leik eigi eftir að koma á morgun. Ég spái 17 stiga sigri hjá KR," sagði Benedikt að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×