Körfubolti

Þorleifur: Það voru allir að klikka hjá okkur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur.
Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur. Mynd/Stefán
„Við gerðum ekki það sem við lögðum upp með og þess vegna er þetta mjög svekkjandi. Maður getur aldrei verið sáttur með að tapa þegar frammistaðan er ekki betri en hún var í þessum leik," sagði Grindvíkingurinn Þorleifur Ólafsson eftir 81-92 tap fyrir Snæfelli í úrslitaleik Subwaybikars karla í dag.

„Við vorum ekki að spila sem eitt lið og við vorum ekki að gera þetta sem ein heild. Við vorum lítið á eftir þeim en samt vorum við að spila mjög lélega," sagði Þorleifur.

„Þegar við vorum að koma til baka inn í leikinn þá vorum við samt allir í hverju sínu horni. Það vantaðu algjörlega að við værum að gera þetta saman á meðan að þeir voru að berjast saman sem lið allan leikinn," sagði Þorleifur.

„Þegar þeir klikkuðu úr skoti þá tóku þeir bara sóknarfrákastið. Í restina þegar við vorum að koma til baka og voru komnir með þetta niður í sex stig þá tóku þeir tvö sóknafráköst í röð og settu síðan þrist í andlitið hjá okkur," sagði Þorleifur og bætti við:

„Það voru allir að klikka hjá okkur í dag og það er sama hver við lítum," sagði Þorleifur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×