Fastir pennar

Ólafur Þ. Stephensen: Stolið úr vasa náungans

Ólafur Þ. Stephensen skrifar

Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að bótasvikamálum, sem Tryggingastofnun kemur upp um, hefði fjölgað þrefalt eftir að stofnunin tók upp hert eftirlit í fyrra. Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri stofnunarinnar, tiltók dæmi af fimm barna fjölskyldu, þar sem faðirinn skráði sig til málamynda utan heimilis og fjölskyldan fékk fyrir vikið um 170 þúsund krónur í bætur á mánuði, sem hún átti ekki rétt á. Bætur fjölskyldunnar frá Tryggingastofnun námu samtals yfir 700 þúsund krónum, sem er meira en margir launþegar á vinnumarkaði hafa í fjölskyldutekjur.

Upp um svikin komst þegar fjölskyldan birti myndir af sér á samskiptavefnum Facebook og starfsfólk Tryggingastofnunar fór fyrir vikið að spyrja spurninga. Fjölskyldan var svipt bótunum sem hún átti ekki rétt á, en verður ekki beitt neinum öðrum viðurlögum. Í blaðinu í gær kemur fram að í félagsmálaráðuneytinu séu nú til skoðunar tillögur frá Tryggingastofnun um að viðurlögum verði beitt við bótasvikum, líkt og öðrum fjársvikum.

Viðbrögðin við fréttinni um hvernig Facebook varð bótasvikurunum að falli hafa verið á ýmsa vegu. Tryggingastofnun bárust strax í kjölfarið um tuttugu ábendingar um sambærileg svik, sem stofnunin telur trúverðugar. Á bloggsíðum og í almennum umræðum hafa hins vegar tvö gagnrýnin sjónarmið komið fram: annars vegar að Tryggingastofnun beiti einhvers konar stórabróður-eftirliti, þar sem fólk fái ekki að vera í friði á eigin samskiptasíðu, og hins vegar að það skjóti skökku við að elta smælingjana þegar stórsvindlarar sem komu við sögu í bankahruninu gangi enn þá lausir.

Tryggingastofnun hlýtur að sjálfsögðu að fylgja eftir ábendingum um bótasvik. Þau eru lögbrot og enginn munur á því að stela peningum af ríkinu og af einhverjum öðrum. Peningarnir, sem greiddir eru í velferðarbætur, koma úr vasa skattgreiðenda. Þeir sem beita blekkingum til að fá meira af þeim peningum en þeim ber samkvæmt lögum eru að stela úr vasa samborgara sinna. Sama á við um þá sem skjóta undan skatti. Það er sjálfsagt að taka hart á þeim brotum eins og öðrum þjófnaði.

Afstæðishyggja er varasöm þegar glæpur og refsing eru annars vegar. Það er ekki ástæða til að refsa ekki fyrir lítinn glæp þótt einhver komist upp með stærri glæp. Atburðir gærdagsins sýndu reyndar að stórlaxar viðskiptalífsins, sem grunaðir eru um afbrot, eru ekki utan seilingar laganna arms.

Rétt er að hafa í huga að í samfélagi, þar sem siðferðileg afstaða fólks er sú að það sé í lagi að stela litlum peningum, er veruleg hætta á að fólki fari líka að finnast í lagi að stela miklum peningum.






×